Viðræður eru hafnar á milli Byrs - sparisjóðs og Sparisjóðs Norðlendinga um mögulega sameiningu sjóðanna. Markmiðið er að styrkja stöðu sparisjóðanna í harðnandi samkeppni á fjármálamarkaði til hagsbóta fyrir viðskiptavini, starfsfólk og stofnfjáreigendur. Stjórnarformenn sparisjóðanna stýra viðræðunum samkvæmt umboði frá stjórnum þeirra. Íslenskur fjármálamarkaður hefur undanfarin ár einkennst af mikilli grósku og vexti. Fjármálafyrirtæki hafa vaxið og dafnað og samkeppni hefur aukist mikið. Viðræður um sameiningu sparisjóðanna eru viðbrögð við þessari þróun. Í mögulegu sameiningarferli er stefnt að því að miða skiptahlutföll við sex mánaða uppgjör sjóðanna sem birt verða í lok ágúst. Verði niðurstaða viðræðnanna jákvæð yrði sameining háð samþykki stofnfjáreigenda beggja sjóðanna, Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins. Engin tímamörk hafa verið sett fyrir viðræðurnar en stefnt er að því að sameining komi í kjölfar sameiningar Byrs og Sparisjóðs Kópavogs. BYR - sparisjóður (www.byr.is) er vaxandi fyrirtæki sem býður einstaklingum og fyrirtækjum faglega ráðgjöf og persónulega þjónustu í fjármálum. Byr varð til við sameiningu Sparisjóðs vélstjóra og Sparisjóðs Hafnarfjarðar árið 2006. Sameining Byrs og Sparisjóðs Kópavogs hefur verið samþykkt af stjórnum sjóðanna og býður samþykkis stofnfjáreigenda og Fjármálaeftirlitsins. Sparisjóður Norðlendinga (www.spnor.is) var stofnaður þann 30. júní 1997 með samruna Sparisjóðs Akureyrar og Arnarneshrepps og Sparisjóðs Glæsibæjarhrepps. Hann sérhæfir sig í þjónustu við einstaklinga og fyrirtæki á Norðurlandi og hefur vaxið mikið á undanförnum árum. Með sameiningu myndu opnast tækifæri fyrir efldan sparisjóð að auka þjónustu sína og taka þátt í stærri verkefnum við uppbyggingu öflugs atvinnulífs á Norðurlandi. Frekari upplýsingar veita: Ragnar Z. Guðjónsson, sparisjóðsstjóri BYRS - sparisjóðs sími: 575 4000 netfang: RagnarZG@byr.is Örn Arnar Óskarsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Norðlendinga sími: 460 2500 netfang: orn@spnor.is
- Viðræður hafnar um sameiningu sparisjóðanna Byrs og Sparisjóðs Norðlendinga
| Quelle: Byr sparisjóður