Yfirtökutilboð Tessera Holding ehf. fyrir hönd hóps fjárfesta til hluthafa Mosaic Fashions hf. rann út þriðjudaginn 7. ágúst 2007. Niðurstaða tilboðsins er sú að Tessera Holding ehf. hefur eignast 1.055.434.890 hluti í Mosaic Fashions hf. eða 36,4% af hlutafé félagsins. Tessera Holding ehf. átti enga hluti í Mosaic Fashions hf. fyrir viðskiptin. Tessera Holding ehf. og aðilar tengdir félaginu eiga nú 2.894.291.555 hluti í Mosaic Fashions hf. eða sem nemur 99,8% hlutafjár félagins. 648 hluthafar tóku yfirtökutilboðinu og eftir kaupin eru hluthafar í Mosaic Fashions hf. 208 talsins. Greiðsla í samræmi við yfirtökutilboðið mun fara fram eigi síðar en 14. ágúst 2007 í samræmi við skilmála tilboðsins. Þeir aðilar sem stóðu að baki yfirtökutilboðinu hafa ákveðið að óska eftir innlausn á útistandandi hlutum í Mosaic Fashions hf. með heimild í 47. gr. laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti. Eftir yfirtökuna og innlausn hluta mun F-Capital ehf. eiga 49,0% hlutafjár í Mosaic Fashions hf., Kaupþing banki hf. mun eiga 20,0%, Gnúpur fjárfestingar¬félag hf. mun eiga 11,19% og Karen Millen og The Millen Life Interest Settlement munu saman eiga 6,75%. Aðrir munu hver um sig eiga minna en 5% hlutafjár í Mosaic Fashions hf. Kaupþing banki hf. var ráðgjafi Tessera Holding ehf. í tengslum við yfirtökutilboðið. Frekari upplýsingar veitir Jessica Wilks, forstöðumaður fjárfestatengsla, í síma +44 207 452 1122. Upplýsingar um Mosaic Fashions hf. er hægt að fá á vefsíðu félagsins, www.mosaic-fashions.is eða www.mosaic-fashions.co.uk.