Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandic Group hefur sagt starfi sínu lausu. Björgólfur hefur gegnt starfi forstjóra félagsins frá því í mars 2006. Stjórn Icelandic hefur samið við Björgólf um starfslok og mun hann láta formlega af störfum um miðjan janúar. Stjórn félagsins þakkar Björgólfi vel unnin störf og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi. Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandic Group: „Við höfum undanfarin misseri unnið að endurskipulagningu félagsins í erfiðu umhverfi. Nú sér fyrir endann á áföngum í því verki. Það er við þessar aðstæður sem ég fékk afar áhugavert tilboð um nýtt starf og ákvað að skipta um starfsvettvang. Þessi ákvörðun mín er tekin í sátt og samlyndi við stjórn félagsins. Ég vil nota tækifærið og þakka öllu því góða fólki sem ég hef unnið með hjá Icelandic Group fyrir vel unnin störf og góða viðkynningu.“ Magnús Þorsteinsson stjórnarformaður Icelandic Group: „Björgólfur hefur leitt umfangsmikið og erfitt umbreytingastarf fyrir Icelandic Group. Ýmislegt af því hefur tekist vel og annað er í farvegi. Brotthvarf hans ber brátt að en ég hef skilning á því að Björgólfur vill reyna fyrir sér á nýjum vettvangi. Ég óska honum velfarnaðar í nýju starfi.” Nánari upplýsingar veitir: Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandic Group, sími: 896 1455 Um Icelandic Group Icelandic Group (OMX Nordic Exchange: IG) er alþjóðlegt net fyrirtækja sem starfa hvert á sínum markaði við framleiðslu og sölu sjávarafurða. Á mörgum mörkuðum er félagið þekkt fyrir vörumerki sitt ICELANDIC, sérstaklega innan veitingahúsa og mötuneyta. Félagið er einnig stór birgi smásöluverslana með framleiðslu undir eigin vörumerkjum eða undir vörumerkjum smásölukeðjanna. Starfsmenn Icelandic Group eru um 4.600. Hjá þeim stóra hópi liggur yfirgripsmikil þekking sem spannar allt frá veiðum og frumvinnslu sjávarfangs til vöruþróunar og framleiðslu tilbúinna rétta og þekking á markaði.