- Finnbogi Baldvinsson ráðinn forstjóri Icelandic Group


Stjórn Icelandic Group hf hefur ráðið Finnboga Baldvinsson sem forstjóra
félagsins. 
 
Finnbogi Baldvinsson stundaði nám í sjávarútvegsfræðum við Háskólann í Tromsö í
Noregi 1983 - 1988. Hann hefur allar götur síðan tengst framleiðslu og vinnslu
sjávarafurða. Finnbogi var framkvæmdastjóri þýska útgerðarfélagsins DFFU í
Cuxhaven árin 1995 - 2000. Hann varð forstjóri Pickenpack Hussmann & Hahn þegar
fyrirtækin sameinuðust  árið 2003 og hann rak félagið til ársins 2006 þegar
Pickenpack varð hluti af Icelandic Group. Finnbogi tók við starfi forstöðumanns
Evrópusviðs Icelandic eða Icelandic Europe 2006. Hann hefur gegnt því starfi
til þessa dags. 

Magnús Þorsteinsson stjórnarformaður Icelandic Group hf
„Nýr maður tekur nú við keflinu og hans hlutverk er skýrt. Tryggja þarf að
Icelandic nái að nýta sér þær miklu umbreytingar sem félagið hefur gengið í
gegnum. Finnbogi Baldvinsson fær það verkefni að auka arðsemi félagsins og koma
því á nýjan leik í fremstu röð. Stjórn félagsins stendur heilshugar að baki
Finnboga og hefur miklar væntingar til þess að honum takist þetta verkefni.“ 

Finnbogi Baldvinsson forstjóri Icelandic Group hf
„Ég lít á þetta sem mjög krefjandi verkefni. Það er ljóst að framundan er tími
hjá félaginu þar sem krafa hluthafa um árangur verður höfð að leiðarljósi.
Félagið hefur gengið í gegnum mikið umbreytingatímabil og hagræðingu í rekstri
og það er mitt hlutverk að sjá til þess að þau verk nýtist til fullnustu. Það
er mikið af hæfu og góðu fólki hjá Icelandic sem ég hlakka til að vinna með.
Það eru líka mikil tækifæri um þessar mundir fyrir fyrirtæki sem starfa í
matvælaframleiðslu. Matur og heilsa er endalaust verkefni sem alltaf er í
tísku.“ 

Frekari upplýsingar:
Finnbogi Baldvinsson forstjóri Icelandic Group hf í síma +49 1723 198 727