Bakkavör Group kaupir 48% í matvæla- og drykkjarvöruframleiðanda í Hong Kong


Reykjavík, 14. mars 2008, Bakkavör Group hefur keypt 48% hlut í matvæla- og
drykkjarvöruframleiðandanum Gastro Primo í Hong Kong, og á kauprétt að
eftirstandandi 52% hlut árið 2010. Kaupverðið er trúnaðarmál. 

Gastro Primo sérhæfir sig í framleiðslu á hágæða matvælum og drykkjarföngum
fyrir veitingahús og veisluþjónustur, auk stórmarkaða í Hong Kong og Macau.
Félagið framleiðir m.a. tilbúna rétti, súpur, sósur, salöt, samlokur,
niðurskorna ávexti og grænmeti, auk ávaxtasafa og hristinga (e. smoothies).
Fyrirtækið var stofnað árið 1990 og er með um 170 starfsmenn í  Hong Kong og
Macau. Velta félagsins árið 2007 nam rúmlega 770 milljónum króna (um 11
milljónum Bandaríkjadala). 

Gastro Primo verður fært í reikninga félagsins sem hlutdeildarfélag frá
kaupdegi en kaupin munu hafa óveruleg áhrif á afkomu félagsins. 

Hong Kong - þróaður markaður

Í Hong Kong er að finna einn þróaðasta neytendamarkað í Asíu. Áhrifa vestrænna
fyrirtækja hafa gætt í landinu umtalsvert lengur en í öðrum löndum álfunnar og
er skyndibitamarkaðurinn í Hong Kong t.a.m. einn sá stærsti í heiminum, með
fjölda veitingahúsakeðja á borð við McDonald's og KFC. Í Hong Kong er
smásöluverslun einnig sú öflugasta í Suð-Austur Asíu, með mjög þróaða
stórmarkaði og þægindavöruverslanir samanborið við önnur svæði. 

Ágúst Gudmundsson, forstjóri:

„Það er ánægjulegt að tilkynna um áframhaldandi uppbyggingu Bakkavarar í Kína
með fjárfestingu félagsins í Gastro Primo, en matvælamarkaðurinn í Hong Kong er
einn sá þróaðasti í Suð-Austur Asíu. Gastro Primo er vel rekið fyrirtæki, með
reynslumikla stjórnendur, traust viðskiptasambönd og góða möguleika á  vexti í
framtíðinni. Við sjáum tækifæri til samvinnu á milli Gastro Primo og fyrirtækja
okkar í Kína sem mun styðja enn frekar við vöxt félagsins í Kína.“ 

Frekari upplýsingar veita:

Ágúst Guðmundsson, forstjóri
Sími: 550 9700

Ásdís Pétursdóttir, fjárfestatengsl
Sími: 858 9715


Um Bakkavör Group 

Bakkavör Group er leiðandi alþjóðlegt matvælafyrirtæki sem sérhæfir sig í
framleiðslu ferskra tilbúinna matvæla. Bakkavör Group rekur nú 57 verksmiðjur
og er með yfir 20 þúsund starfsmenn í níu löndum. Höfuðstöðvar félagsins eru í
Reykjavík og er félagið skráð á OMX Nordic Exchange á Íslandi. (www.icex.is -
auðkenni BAKK). 

Bakkavör Group var stofnað árið 1986 og hefur starfsemi félagsins vaxið
verulega á síðastliðnum 20 árum. Í dag er félagið leiðandi í framleiðslu á
ferskum tilbúnum matvælum á alþjóðavísu. Félagið hefur leiðandi markaðstöðu í
Bretlandi í lykilvöruflokkum sínum og framleiðir yfir 6.000 vörutegundir í 17
vöruflokkum. Vörur félagsins eru seldar undir vörumerkjum stórmarkaðanna.
Meginhluti starfseminnar fer fram í Bretlandi en auk þess er félagið með
starfsemi í Frakklandi, Belgíu, Spáni, Tékklandi, Suður-Afríku, Kína,
Bandaríkjunum og á Íslandi. 

Skráning á póstlista Bakkavör Group: investor.relations@bakkavor.com