Hagnaður af rekstri ÍAV hf. árið 2007 að teknu tilliti til skatta nam 429 milljónum króna. EBITDA 1.071 m.kr. og veltufé frá rekstri 906 m.kr. Á stjórnarfundi Íslenskra aðalverktaka hf. þann 31. mars 2008 var ársreikningur fyrir árið 2007 staðfestur. Ársreikningur Íslenskra aðalverktaka hf. hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess. Rekstur á árinu 2007 Rekstrartekjur samstæðu Íslenskra aðalverktaka hf. námu 15.589 milljónum króna á árinu 2007. Hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) var 1.071 milljónir króna. Afskriftir ársins námu 324 milljónir króna. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta nam 747 milljónum króna á árinu. Hagnaður félagsins fyrir skatta, að teknu tilliti til fjármagnsliða nam 527 milljónum króna, en fjármagnsliðir voru nettó neikvæðir um 220 milljónir króna. Að teknu tilliti til reiknaðra skatta nam hagnaður félagsins 429 milljónum króna á árinu 2007. Efnahagur Heildareignir Íslenskra aðalverktaka hf. og dótturfélaga námu 9.512 milljónum króna í lok desember 2007. Heildarskuldir samstæðunnar voru 6.449 milljónir króna og bókfært eigið fé þann 31. desember 2007 var 3.063 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall var því 32%. Sjóðstreymi Veltufé samstæðu Íslenskra aðalverktaka hf. frá rekstri á árinu 2007 var 906 milljónir króna. Handbært fé í lok desember 2007 var 155 milljónir króna og veltufjárhlutfall var 1,37. Starfsemi ÍAV árið 2007 / framtíðarhorfur Á undanförnum mánuðum hefur orðið nokkur vöxtur á starfsemi félagsins á almennum verktakamarkaði á sama tíma og dregið hefur úr áhrifum íbúðarbygginga á rekstur félagsins. Tekjur félagsins jukust um 17% á milli ára og gert er ráð fyrir áframhaldandi vexti á starfsemi félagsins á árinu 2008. Vel gekk að afla félaginu nýrra verkefna á árinu 2007 auk þess sem áfram var haldið með verkefni frá fyrra ári. Verkefnastaða félagsins er góð. Stærsta einstaka verkefni félagins um þessar mundir er bygging tónlistar- og ráðstefnuhúss við Reykjavíkurhöfn auk tengdra verkefna. Félagið vinnur einnig að nokkrum öðrum stórverkefnum, svo sem byggingu skrifstofu og vörugeymslu fyrir Ölgerðina við Grjótháls, byggingu vélsmiðju í Hafnarfirði, bygging Íþróttamiðstöðvar á Álftanesi auk fjölda annarra verkefna. Helstu eigin íbúðarbyggingar félagsins eru við Norðurbakka í Hafnarfirði, Hrólfsskálamel á Seltjarnarnesi og Mánatún í Reykjavík. Þá vinnur félagið að byggingu skrifstofubyggingar við Glæsibæ. Á næstu dögum verða undirritaðir samningar um byggingu Óshlíðarganga en ÍAV mun vinna það verkefni í samstarfi við Marti Contractors LTD. frá Sviss. Verktakastarfsemi er líkt og önnur starfsemi háð ytri aðstæðu í þjóðarbúinu og kemur aukin verðbólga og gengisfall íslensku krónunnar því til með að hafa áhrif á rekstur ÍAV eins og annarra félaga hér á landi. Stjórnendur ÍAV sjá þó margvísleg tækifæri til áframhaldandi vaxtar og fjölþættingar á starfsemi félagsins í framtíðinni. Hjá Íslenskum aðalverktökum hf. og dótturfélögum þess störfuðu að meðaltali 668 starfsmenn á árinu 2007 auk starfsmanna undirverktaka sem skipta hundruðum.
2007
| Quelle: Íslenskir aðalverktakar hf.