Fjórði sparisjóðurinn sem starfar undir merkjum Byrs SPARISJÓÐUR NORÐLENDINGA, SPNOR verður frá og með deginum í dag, 21. apríl, Byr sparisjóður og er þar með fjórði sparisjóðurinn til að taka upp merki Byrs. Sameining sparisjóðanna tveggja á sér talsverðan aðdraganda, en Fjármálaeftirlitið samþykkti þann 19. mars sl. að samruninn tæki gildi frá og með 1. júlí 2007. Sameiningarferlinu verður svo endanlega lokið á morgun, 22. apríl, þegar samkeyrsla gagna hvors sparisjóðs hefur farið fram. Engin breyting verður á daglegum rekstri hvað viðskiptavini sparisjóðsins snertir. Byr á Akureyri verður í sama húsnæði og SPNOR hefur verið að Skipagötu 9 og engar breytingar eru fyrirhugaðar á starfsliði sparisjóðsins, en þess má geta að viðskiptavinir hans hafa verið meðal þeirra ánægðustu samkvæmt Íslensku ánægjuvoginni. Með enn öflugri einingu á landsvísu er stefna Byrs sú, að auka þjónustu og faglega ráðgjöf enn frekar að umfangi og gæðum í samræmi við þá áherslu á að vinna að bættri fjárhagslegri heilsu viðskiptavina sinna. Jafnframt er það stefna Byrs að laga starfsemi sína að þörfum hvers markaðssvæðis fyrir sig. Sparisjóður Norðlendinga var stofnaður árið 1997 með samruna Sparisjóðs Akureyrar og Arnarneshrepps og Sparisjóðs Glæsibæjarhrepps. Af þeim þremur var Sparisjóður Arnarneshrepps elstur, stofnaður árið 1884 og á SPNOR því rætur að rekja til eins af elstu peningastofnun landsins. Með SPNOR hafa fjórir sparisjóðir sameinað krafta sína undir merkjum Byrs, sem eru auk hans Sparisjóður Hafnarfjarðar, Sparisjóður Kópavogs og Sparisjóður vélstjóra. Nánari upplýsingar veita sparisjóðsstjórar í síma 575 4000.
- Sparisjóður Norðlendinga verður Byr
| Quelle: Byr sparisjóður