- Öflugt fasteignafélag myndað


Eigendabreytingar hafa átt sér stað á eignarhaldi Fasteignafélags Íslands ehf.
og í móðurfélagi Eikar fasteignafélags hf., Eikarhaldi ehf. Samhliða  hefur
nafni Eikarhalds ehf. verið breytt í Eik Properties ehf.  Það var
Fyrirtækjaráðgjöf Glitnis sem var umsjónaraðili verkefnisins. 

Eik Properties ehf. á nú allt hlutafé í Eik fasteignafélagi hf. og mun eiga því
til viðbótar 100% eignarhlut í Fasteignafélagi Íslands ehf., 64% hlut í Glitni
Real Estate Fund hf. og 10% eignarhlut í Eignarhaldsfélaginu Fasteign hf.
Saxbygg ehf. er stærsti eigandi félagsins og kjölfestufjárfestir með um 52%
eignarhald, Glitnir með um 46% eignarhlut  og aðrir fjárfestar með tæp 2%. 

Saxbygg leggur 65,97% hlut sinn í Fasteignafélagi Íslands ehf. og 20,2% hlut
sinn í Glitni Real Estate Fund hf. til Eik Properties í skiptum fyrir nýtt
hlutafé. Glitnir eignast hlut í nýju félagi fyrir 33,69% hlut bankans í
Fasteignafélagi Íslands ehf. og um 71,7% hlut í fasteignafélaginu Eikarhaldi
ehf. Samhliða þeim samningum hefur Glitnir framselt hlut sinn í Fasteignafélagi
Íslands ehf., 10% af hlutafjáreign sinni í Eignarhaldsfélaginu Fasteign hf. og
um 44,44% hlut í Glitni Real Estate Fund hf. til Eik Properties hf. í skiptum
fyrir nýtt hlutafé. 

Markmið félagsins er að vaxa á næstu árum hér á landi og erlendis með þátttöku
í kaupum á fasteignum og fasteignafélögum og eigendur stefna að skráningu
félagsins þegar fram í sækir. 

Forstjóri Eik Properties ehf. er Garðar Hannes Friðjónsson. 


Eik Properties ehf. samanstendur af eftirfarandi félögum:

Fasteignafélag Íslands ehf.
Félagið á m.a. dótturfélögin Eignarhaldsfélagið Smáralind ehf. sem á og rekur
verslunarmiðstöðina Smáralind og Norðurturninn ehf, sem nú byggir norðurturninn
við Smáralind.  Félagið á auk þess lóðir í kringum verslunarmiðstöðina. 

Eik fasteignafélag hf.
Félagið er eitt stærsta fasteignafélag á landinu og sérhæfir sig í leigu á
atvinnuhúsnæði aðallega á höfuðborgarsvæðinu. Félagið á tæplega 50 fasteignir
og er flatarmál þeirra um 110 þúsund fermetrar. 

Glitnir Real Estate Fund hf.
Félagið á félög sem eiga 7 fasteignir í Noregi og Svíþjóð ásamt lóðum sem eru í
þróun. Fasteignir sem eru í leigu eru um 19 þúsund fermetrar og meðal stærstu
leigjenda eru m.a. norska ríkið og Volvo. 

Eignarhaldsfélagið Fasteign hf.
Félagið er eitt stærsta fasteignafélag á landinu sérhæfir sig í leigu á
fasteignum til sveitarfélaga, skóla og fjármálafyrirtækja. Í eignasafni
Fasteignar eru rúmlega 70 fasteignir og flatarmál þeirra um 110 þúsund
fermetrar. Félagið byggir nú m.a. nýjan skóla fyrir Háskólann í Reykjavík við
Vatnsmýri. 


Nánari upplýsingar veitir Helgi M. Magnússon, framkvæmdastjóri
Eignarhaldsfélagsins Smáralind ehf., sími: 528-8000.