- 6 mánaða uppgjör 2008


Samandreginn árshlutareikningur 30. júní 2008

Samson er eignarhaldsfélag og er tilgangur þess almenn fjárfestingastarfsemi og
skyldur rekstur.  Félagið er eigandi eins dótturfélags Ópera fjárfestingar ehf.
og samanstendur því samstæðureikningur Samson eignarhaldsfélags ehf. af
reikningsskilum móðurfélagsins og Óperu fjárfestingar ehf.  Fjárfestingafélagið
Ópera fjárfestingar ehf. er eigandi að um 25% eignarhluta í
Fjárfestingarfélaginu Gretti hf. 

Árshlutareikningurinn er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla
um árshlutareikninga. 

Á fyrri árshelmingi 2008 var færður söluhagnaður vegna fasteignafélagsins
Samson Properties ehf. samtals 5.990 m.kr. en á árinu var stofnað nýtt
fasteignafélag, Novator Properties sem keypti allar eignir Samson Properties og
yfirtók skuldir þess.  Jafnhliða því fór Novator Properties í hlutafjárútboð
þar sem nýjum hluthöfum var boðið að taka þátt.  Hluti af söluverði Samson
Properties ehf var greitt með 36% hlut í Novator Properties og er sú eign færð
meðal eigna til sölu. 
  
Eignarhluti móðurfélagsins í Landsbanka Íslands hf. var 4.685 m.kr. að
nafnverði í lok tímabilsins og nam hann 41,85% af heildarhlutafé bankans. 
Markaðsverð eignarhlutans nam 107.980 m.kr. í lok júní en bókfært virði hans er
91.057 m.kr. en beitt er hlutdeildaraðferð við bókun eignarhlutans.  Gengi
hlutafjár í Landsbanka Íslands hf. lækkaði um 35% á  fyrri hluta ársins 2008. 

Hagnaður félagsins á tímabilinu 1. janúar til 30. júní 2008 nam 35.764 m.kr.
samanborið við 3.165 m.kr. tap á sama tímabili á árinu 2007.  Hlutdeildartekjur
eignarhluta félagsins í Landsbanka Íslands hf. nema 12.531 m.kr.  Markaðsvirði
eignarhlutans dróst hins vegar saman um 35% eða 53.866 m.kr. á tímabilinu. 
Félagið færir afleiðusamninga á markaðsvirði og því kemur fram tekjufærsla að
fjárhæð 19.483 m.kr. sem að stórum hluta er vegna veikingar íslensku krónunnar
á tímabilinu.  Sem alþjóðlegt fjárfestingafélag beitir félagið gengisvörnum til
að styðja við eign félagsins í Landsbanka Íslands hf. og draga úr gengisáhrifum
á eignir félagsins í evrum talið.  Þar sem félagið beitir hlutdeildaraðferð á
eign sína í bankanum er lækkun á markaðsverði eignarinnar ekki færð á móti
þessum hagnaði. 

Á tímabilinu er skattskuldbinding félagsins að upphæð 3.844 m.kr. innleyst á
grundvelli nýrra laga um skattfrelsi söluhagnaðar hlutabréfa. 

Fjármögnun félagsins hefur gengið eftir atvikum vel það sem af er árs og
handbært fé nemur í lok júní 16.663 m.kr.  Mestur þungi í endurfjármögnun
skammtímaskulda er á öðrum ársfjórðungi 2009. 

Bókfært eigið fé í lok júní 2008 nam 54.174 m.kr. samkvæmt efnahagsreikningi og
hækkaði það um 180,4% frá árslokum 2007.  Ef eignarhlutur félagsins í
Landsbanka Íslands hf. væri færður til eignar á markaðsverði væri eigið fé
félagsins 71.098 m.kr. og eiginfjárhlutfall þá 44,59%.  Í árslok 2007 var eigið
fé félagsins skv. sömu aðferð 102.745 m.kr. og hefur því lækkað um 31% á árinu.

Anhänge

samson eignarhaldsfelag arshlutareikningur juni 2008.pdf samson samandreginn arshlutareikningur juni 2008 - frettatilkynning.pdf