- Sterkir fjárfestar koma að Eimskipafélaginu og styrkja stöðu þess - Eins og áður hefur komið fram gaf HF Eimskipafélag Íslands út ábyrgð í tengslum við sölu félagsins á XL Leisure Group sem enn er í gildi. Samkvæmt upplýsingum frá XL er unnið að endurfjármögnun lánsins. Án þess að taka afstöðu til þess hvenær þeirri vinnu muni ljúka, þá telur stjórn Eimskips ljóst af aðstæðum á evrópskum flugmarkaði og rekstrarumhverfi flugfélaga almennt að líkur á þvi að ábyrgðin falli á Eimskip hafi aukist. Í ljósi þessa telur stjórn félagsins skynsamlegt að tryggja stöðu þess, komi til þessa að ábyrgðin falli. Sterkir fjárfestar koma að Eimskipafélaginu og styrkja stöðu þess Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson hafa ákveðið að styrkja stöðu Eimskips, komi til þess að umrædd ábyrgð falli á félagið. Falli ábyrgðin á félagið, mun hópur fjárfesta undir þeirra forystu kaupa kröfuna og fresta gjalddaga hennar. Jafnframt er fyrirhugað að hún muni víkja fyrir kröfum annarra lánardrottna á hendur Eimskip. Með þessum aðgerðum eru takmörkuð þau áhrif sem ábyrgðir vegna lána og annarra skuldbindinga vegna XL samstæðunnar kunna að hafa á starfsemi Eimskips. Fjárhæð kröfu vegna sölu XL og flugrekstrarleyfisábyrgða, sem ofangreindir fjárfestar hafa lýst sig reiðubúna að kaupa, er um 207 milljónir evra. Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips: „Endurfjármögnun XL hefur verið stór þáttur í að losa Eimskip undan umræddum ábyrgðum. Við vonumst enn til þess að það ferli klárist en viljum jafnframt benda á að það ferli kann að reynast erfiðara en áður var talið. Komi til þess að ábyrgðin falli á Eimskip hafa öflugir fjárfestar lýst sig reiðubúna til að styðja við félagið sem ég tel mjög jákvætt. Markmið okkar er að eiginfjárhlutfall félagsins sé yfir 25%. Í því samhengi er unnið að ýmsum aðgerðum í rekstri félagsins. Tilgangur þessara aðgerða er að lækka skuldir Eimskip umtalsvert og þar með styrkja fjárhag félagsins og eiginfjárhlutfall.“ Frekari upplýsingar veitir: Gylfi Sigfússon Forstjóri Sími: 525 7202 Póstfang: gyl@eimskip.is
Endurfjármögnun XL Leisure Group ekki tryggð
| Quelle: Hf. Eimskipafélag Íslands