Í kjölfar þess að Lehman Brothers Holdings, Inc hefur verið tekið til gjaldþrotameðferðar telur Straumur-Burðarás fjárfestingabanki hf. ("Straumur") rétt að koma eftirfarandi á framfæri. Straumur ber enga beina áhættu vegna Lehman Brothers Holdings, Inc, hvorki vegna fjárfestinga í hlutabréfum né skuldum félagsins, lánveitinga til þess né með nokkrum öðrum hætti. Straumur ber hins vegar áhættu af hinu breska félagi Lehman Brothers International (Europe) ("LBIE"), einkum vegna þess að LBIE var miðlari og jafnframt gagnaðili Straums í viðskiptum með afleiður. Vegna þessara viðskipta átti Straumur hinn 15. september 2008 tryggingainnistæður hjá LBIE að fjárhæð 48,2 milljónir evra í peningum og 16,8 milljónir evra í hlutabréfum. Straumur gerir kröfu um endurheimt þessara trygginga. Auk þessa gerir Straumur tilkall til hagnaðar af téðum viðskiptum að fjárhæð 6,0 milljónir evra sem bankinn á inni hjá LBIE. Öllum viðskiptasamningum sem að baki lágu hefur verið lokað án teljandi kostnaðar. Í öðru lagi hafði Straumur selt skuldatryggingar á Lehman Brothers Holding, Inc, að hluta til í því skyni að vega upp á móti annarri áhættu af tilteknum öðrum viðskiptum, og nemur tryggingarfjárhæðin alls 29 milljónum evra. Ekki liggur fyrir hvenær og enn síður hvernig farið verður með kröfur á hendur Lehman Brothers Holding og tengdum félögum. Straumur getur því ekki á þessu stigi lagt mat á hvort og þá hve mikið bankinn kann að þurfa að afskrifa vegna þessa. Fyrir liggur að það mun ekki hafa teljandi áhrif á lausafjárstöðu Straums og takmörkuð áhrif á sterkt eiginfjárhlutfall bankans. William Fall, forstjóri Straums:"Við höfum á undanförnum tveimur árum eða svo dregið verulega úr áhættu í efnahagsreikningi Straums með því að minnka hlutafjáreign bankans til muna. Enn fremur höfum við innleitt mjög öfluga áhættustýringu í rekstri bankans. Hvort tveggja hefur miðað að því að draga úr markaðsáhættu og gengistapi en ljóst má vera að það er ekki á okkar valdi að koma í veg fyrir að mótaðilar okkar í viðskiptum verði gjaldþrota. Straumur stendur óvenjulega vel að vígi með um 1.100 milljóna evra eiginfjárgrunn í lok annars ársfjórðungs, 25,4% eiginfjárhlutfall samanborið við 8% lögbundið lágmark og þar með 766 milljónir evra í eigið fé á CAD-grunni umfram það sem krafist er. Því er ljóst að bankinn ræður auðveldlega við þær afskriftir sem hugsanlega kunna að koma til. Ég legg hins vegar áherslu á að vegna óvissunnar sem uppi er, meðal annars um hugsanlega sölu á þeirri starfsemi á vegum Lehman sem Straumur átti viðskipti við, er ekki tímabært að varpa fram getgátum um hvort og þá hvert mögulegt tjón bankans kann að verða." Nánari upplýsingar veitir: Ólafur Teitur Guðnason, fjölmiðlafulltrúi Sími: 858 6778 Netfang: olafur.gudnason@straumur.net
Um áhættu Straums af Lehman Brothers
| Quelle: Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf.