Reykjavík 7. október, 2008 Glitnir banki hf. tilkynnir hér með að Fjármálaeftirlitið (FME) hefur ákveðið að taka yfir vald hluthafafundar Glitnis banka hf. og víkja félagsstjórn í heild sinni frá störfum þegar í stað. FME hefur skipað skilanefnd sem tekur við öllum heimildum stjórnar þegar í stað. Almenn bankastarfsemi verður óbreytt, öll útibú opin og áfram verður opið fyrir millifærslur í íslenskum krónum. Gera má áfram ráð fyrir verulegum takmörkunum á gjaldeyrisviðskiptum. Breytingar á þeirri stöðu verða gerðar í samráði við Seðlabanka og FME. Í skilanefnd hafa verið skipaðir Árni Tómasson, Heimir Haraldsson, Steinunn Guðbjartsdóttir, Sverrir Örn Þorvaldsson og Ágúst Hrafnkelsson. Skilanefnd hefur farið þess á leit við Lárus Welding að hann haldi áfram störfum sem forstjóri Glitnis og hefur samþykkt þá ósk. Þá hefur einnig verið óskað eftir því að stjórnendur og starfsfólk bankans haldi áfram störfum fyrir bankann. Glitnir vill taka fram að bankinn hefur ekki verið tekinn til gjaldþrotaskiptameðferðar. Vinna hefur þegar hafist við endurskipulagningu á starfsemi Glitnis. Skilanefndin og forstjóri Glitnis eru sammála um að starfsemi Glitnis skuli áfram vera í eins eðlilegu horfi og kostur. Nánari upplýsingar veitir: Már Másson, forstöðumaður samskiptasviðs Glitnis, 844 4990, mar.masson@glitnir.is
Fjármálaeftirlitið tekur yfir stjórn Glitnis
| Quelle: Glitnir banki hf.