- Héraðsdómur Reykjavíkur veitir Kaupþingi banka hf. greiðslustöðvun


Héraðsdómur Reykjavíkur veitti Kaupþingi banka hf.,("Kaupþing")
heimild til greiðslustöðvunar, í dag 24. nóvember 2008. Að mati
skilanefndar bankans var nauðsynlegt að stíga þetta skref til að
tryggja jafnræði kröfuhafa, í samræmi við íslensk lög og tilskipanir
ESB. Greiðslustöðvunin veitir bankanum nauðsynlega vernd gegn
lögsóknum. Á meðan á greiðslustöðvun stendur mun bankinn halda
starfsleyfi sínu að því marki sem nauðsynlegt er til að viðhalda
verðmæti eigna bankans.

Greiðslustöðvunin mun einnig veita Kaupþingi svigrúm til
áframhaldandi viðræðna við kröfuhafa, með það að markmiði að hámarka
verðmæti eigna fyrir alla hlutaðeigandi. Eins og komið hefur fram
hefur verið stofnuð óformleg nefnd kröfuhafa. Með greiðslustöðvuninni
er stefnt að því að gera áframhaldandi samstarf við kröfuhafanefndina
skilvirkara. Ráðgert er að halda annan fund með nefndinni í desember.

Ólafur Garðarsson, hæstaréttarlögmaður, hefur verið ráðinn
aðstoðarmaður í greiðslustöðvun. Hann mun starfa með skilanefnd
bankans, en hún mun, lögum samkvæmt, fara áfram með valdheimildir
stjórnar bankans.  Markmið hans eru þau sömu og skilanefndar, að
varðveita eignir og hámarka greiðslu til lánadrottna.

Greiðslustöðvunin er veitt til kl. 14:00 föstudaginn 13. febrúar
2009. Aðstoðarmanni bankans í greiðslustöðvun er skylt að boða fund
með kröfuhöfum, sem haldinn skal eigi síðar en þremur dögum fyrir lok
þess tíma. Greiðslustöðvunin getur að hámarki varað í 24 mánuði.

Greiðslustöðvunin nær ekki til Nýja Kaupþings banka hf., en hann tók
við starfsemi Kaupþings á Íslandi, 21. október 2008.