Umfjöllun fjölmiðla undanfarið varðandi matvælaiðnaðinn sem Bakkavör Group starfar í hefur komið af stað vangaveltum um stöðu Bakkavör Group og þá sérstaklega fjármögnun félagsins. Í því ljósi og sem viðbrögð við umfjöllun fjölmiðla vill stjórn Bakkavör Group (Bakkavör) koma eftirfarandi á framfæri: Innstæða og fjármögnun félagsins Eins og tilkynnt var í 9 mánaða uppgjöri félagsins í október síðastliðnum þá á félagið umtalsverða innstæðu hjá Nýja Kaupþingi banka. Innstæðan er að fullu tryggð af Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta á Íslandi auk þess að forsætisráðuneytið og Seðlabanki Íslands hafa staðfest að svo sé. Félagið hefur getað leyst út hluta innstæðunnar en stjórn félagsins er þó fullviss að þær 140 milljónir punda sem eftir eru fáist leystar út að fullu í pundum þó ekki sé ljóst hvenær það verði. Í ljósi þessa hefur Bakkavör haft frumkvæði að viðræðum við aðila að alþjóðlegu sambankaláni félagsins og hefur Bakkavör fengið ráðgjafa félagsins til langs tíma, NM Rothschild & Sons Limited (NMR), til þess að vera ráðgefandi í þeim viðræðum. Skuldabréfaflokkar Bakkavarar Jafnframt á Bakkavör í viðræðum við eigendur skuldabréfa félagsins sem gefin voru út á árunum 2003 til 2005 í þeim tilgangi að framlengja gjalddaga bréfanna. Grunnrekstur Bakkavarar er sterkur. Rekstur félagsins er arðbær, sjóðsmyndun sterk og félagið nýtur góðra tengsla við bæði viðskiptavini og birgja og eru viðskiptakjör milli aðila eðlileg. Þar sem félagið hefur á undanförum árum notið góðs stuðnings fjármálastofnana og eigenda skuldabréfa félagsins þá er stjórn félagsins þess fullviss að viðræðurnar muni skila góðum árangri. Félagið mun nú birta niðurstöður ársuppgjörs 12. mars 2009 þar sem nánari skil verða gerð á stöðu ofangreindra mála. Nánari upplýsingar: Ísland: Snorri Guðmundsson Fjárfestatengsl Bakkavör Group hf Sími: +354 550 9710 Farsími: +354 858 9710 Tölvupóstur: snorri@bakkavor.com Heimasíða: www.bakkavor.com Utan Íslands: Fiona Tooley Citigate Dewe Rogerson Farsími: +44 (0) 7785 703523 Sími : +44 (0)121 455 8370 Tölvupóstur: fiona.tooley@citigatedr.co.uk