Jón Þorsteinn Jónsson, stjórnarformaður, hefur tilkynnt stjórn Byrs, að hann sjái sig knúinn til að láta tímabundið af stjórnarstörfum fyrir sparisjóðinn fram að næsta aðalfundi hans. Við stjórnarformennsku Jóns Þorsteins tekur Jón Kristjánsson sem verið hefur varaformaður stjórnar Byrs. Í tilkynningu Jóns Þorsteins til stjórnar sparisjóðsins, segir um ástæðu þessarar ákvörðunar, að félög nátengd honum standi nú í samningum við lánadrottna. Á meðan á því samningaferli standi, muni það krefjast allrar athygli hans og tíma og hann telji af þeim sökum óheppilegt að starfa í stjórn fjármálafyrirtækis á sama tíma. Jón Þorsteinn hefur verið stjórnarformaður sparisjóðsins frá árinu 2004. Áður hafði hann setið í stjórn hans frá árinu 2001. Stjórn Byrs lýsir fullu trausti á Jón Þorstein og þakkar honum það góða starf sem hann hefur unnið af heilindum fyrir Byr, jafnt við uppbyggingu sparisjóðsins sem á umbrotatímum undanfarinna mánuða og óskar honum velfarnaðar í þeim verkefnum sem framundan eru. Nánari upplýsingar veitir Ragnar Z. Guðjónsson, sparisjóðsstjóri, í síma 575 4000.