Ársreikningur Byggðastofnunar 2008 Hlutverk Byggðastofnunar er að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni. Stofnunin undirbýr, skipuleggur og fjármagnar verkefni og veitir lán með það að markmiði að treysta byggð, efla atvinnu og stuðla að nýsköpun í atvinnulífi. Byggðastofnun fylgist einnig með þróun byggðar í landinu og vinnur að byggðaáætlun í samvinnu við Iðnaðarráðherra. Byggðastofnun er með skrifstofu sína á Sauðárkróki. Á árinu 2008 störfuðu 20 starfsmenn hjá stofnuninni. Ársreikningur Byggðastofnunar 2008 var staðfestur af stjórn stofnunarinnar 10. mars 2009. Hreinar vaxtatekjur námu 459.621 þús. kr. miðað við 221.579 þús. kr. árið 2007. Rekstrartekjur námu 1.230.450 þús. kr. og rekstrargjöld 557.656 þús. kr. Að meðtölum framlögum í afskriftarreikning útlána og endurmati hlutafjáreignar eru heildar rekstrargjöld 2.218.055 þús. kr. Framlög í afskriftarreikning útlána og niðurfært hlutafé nam 1.660.399 þús. kr. Skýrast þessi háu framlög í afskriftarsjóð af tvöföldun efnahagsreiknings hennar, en 75% af útlánasafni stofnunarinnar er í erlendri mynt. Vegna falls íslensku krónunnar var framlag í varasjóð vegna útlána 1.237.392 þús kr. og endurmat á hlutafjáreign 421.567 þús. kr. Hér er því um varúðarfærslu að ræða. Endanlega töpuð útlán á árinu 2008 námu 266.214 þús. kr. sem er 1,35% af heildarútlánum í lok árs. Er það lægsta hlutfall sem sést hefur í sögu stofnunarinnar og sýnir styrk útlánasafns hennar. Tap ársins nam því 527.984 þús. kr. miðað við 179.372 þús. kr. tap árið 2007. Eignir Byggðastofnunar í lok árs 2008 námu 23.308.932 þús. kr., þar af námu útlán 19.703.499 þús. kr. og hafa hækkað um 10.206.560 þús. kr. frá lok árs 2007. Skuldir Byggðastofnunar námu 21.661.349 þús. kr. og hafa hækkað um 10.880.523 þús. kr. frá árinu 2007. Á árinu veitti stofnunin ný lán að fjárhæð 3.880.601 þús kr. en samsvarandi fjárhæð árið 2007 nam 2.009.980 þús. kr. Veittar ábyrgðir utan efnahagsreiknings voru um áramótin 363.914 þús. kr. Varanlegir rekstrarfjármunir Byggðastofnunar voru 3,53% af eigin fé. Eigið fé Byggðastofnunar nam 1.544.537 þús. kr. eða 6,63% af niðurstöðu efnahagsreiknings og hefur lækkað úr 2.072.520 þús. kr. Eiginfjárhlutfall stofnunarinnar samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki er 2,80%. Samkvæmt ákvæðum laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki skal eigið fé lánastofnunar á hverjum tíma eigi nema lægri fjárhæð en sem svara 8% af áhættugrunni. Skýrist lækkun eiginfjárhlutfallsins af tvöföldun efnahagsreiknings hennar, en eins og kemur fram hér að ofan er 75% af útlánasafni stofnunarinnar er í erlendri mynt. Vegna falls íslensku krónunnar var framlag í varasjóð vegna útlána 1.237.392 þús kr. og endurmat á hlutafjáreign 421.567 þús. kr.