Endurskipulagning Straums í samvinnu við lánadrottna er hafin.



30. mars 2009

Þann 19. mars s.l. veitti Héraðsdómur Reykjavíkur Straumi-Burðarási
fjárfestingabanka hf. (Straumur) heimild til greiðslustöðvunar.
Greiðslustöðvunin gerir Straumi mögulegt að endurskipuleggja rekstur
félagsins í samvinnu við kröfuhafa þess.

Síðan 19. mars hefur framkvæmdastjórn Straums fundað reglulega með
stærstu kröfuhöfum félagsins og lagt fram áætlun um
endurskipulagningu Straums. Í framhaldi af þessum fundum hafa
kröfuhafar félagsins samþykkt að koma að þessari endurskipulagningu.
Sú vinna felur m.a. í sér að láta framkvæma áreiðanleikakönnun á
eignum og skuldum félagsins, taka ákvörðun um rekstrarform
fyrirtækisins og afstöðu til lögfræðilegra álitamála varðandi það.

Stærri kröfuhafar, bæði innlendir og erlendir, eru um þessar mundir
að mynda fulltrúanefnd kröfuhafa. Þessi nefnd, ásamt framkvæmdastjórn
Straums og skilanefnd bankans, mun leiða endurskipulagningu Straums.

Eftir að endurskipulagningarvinnu verður lokið mun félagið hafa það
að megin markmiði að stýra eignum sínum og hámarka virði þeirra.
Þannig er ætlunin að vernda hagsmuni lánadrottna og annarra er
hagsmuna eiga að gæta. Ætlunin er að þessari vinnu verði lokið áður
en greiðslustöðvunartímabil lýkur.

Nánari upplýsingar veitir:
Georg Andersen
Forstöðumaður Samskiptasviðs
Sími: +354 5856707
georg@straumur.com