Stoðir (FL Group) óska eftir heimild til að leita nauðasamninga við lánardrottna


Stoðir hafa óskað eftir heimild Héraðsdóms Reykjavíkur til að leita
nauðasamninga við kröfuhafa sína. Lánardrottnar félagsins, sem fara með 86% af
fjárhæð krafna á hendur félaginu, styðja að Stoðir vinni áfram að fjárhagslegri
endurskipulagningu sem meðal annars felur í sér að félaginu verði veitt heimild
til að leita nauðasamninga. Gert er ráð fyrir núverandi hlutafé félagsins verði
afskrifað að öllu leyti og kröfuhafar félagsins verði eigendur alls hlutafjár í
Stoðum. 

Stoðir hafa verið í greiðslustöðvun síðastliðna sex mánuði, síðan stærsta eign
félagins, 32% eignarhlutur í Glitni að verðmæti 75 milljarða króna, varð
verðlaus. Eignir Stoða eru nú metnar á um 70-80 milljarða króna og hafa lækkað
um u.þ.b. 160 milljarða króna sl. sex mánuði. Skuldir Stoða eru nú áætlaðar um
287 milljarðar króna og hafa hækkað um 55 milljarða króna síðastliðið hálft ár,
vegna gengisbreytinga og áfallinna vaxta. Verðmæti eigna Stoða er því nú talið
nema um 25-30% af andvirði skulda. 

Í byrjun febrúar 2009 var myndað svokallað kröfuhafaráð Stoða sem hefur, ásamt
stjórn og starfsmönnum Stoða, unnið að málefnum félagsins með hagsmuni
lánardrottna að leiðarljósi. Í kröfuhafaráðinu sitja fulltrúar stærstu
kröfuhafa félagsins, þ.e. fulltrúar frá Nýja Kaupþingi, Gamla Glitni,
Landsbanka NBI, fulltrúi erlendra lánveitanda að sambankaláni og fulltrúi
ótryggðra kröfuhafa. 

Stjórnendur Stoða, stjórn og kröfuhafaráð félagsins telja að gjaldþrot þjóni
ekki hagsmunum lánardrottna Stoða. Kæmi til gjaldþrots myndi rekstur félaga í
eigu Stoða komast í uppnám og lægra verð fengist fyrir eignir félagsins en
langtímaáætlanir gera ráð fyrir. Stjórnendur Stoða hafa, í náinni samvinnu við
kröfuhafaráðið, samið drög að áætlun um endurskipulagningu fjárhags félagsins.
Grundvallaratriði endurskipulagningarinnar eru að núverandi hlutafé verður
afskrifað að öllu leyti og kröfuhafar félagsins munu eignast allt hlutafé í
félaginu. 

Fyrirhugaðir nauðasamningar við ótryggða kröfuhafa eru hluti af stærra ferli
með þátttöku tryggðra kröfuhafa, sem eiga veð í eignum Stoða. Gert er ráð fyrir
að tryggðir kröfuhafar muni skuldbreyta veðtryggðum kröfum sínum á hendur
félaginu og fá þær greiddar að hluta með veðtryggðu skuldabréfi og að hluta til
með hlutafé í sérstökum hlutaflokki sem nýtur forgangs til arðs gagnvart
almennum hlutaflokki. Í frumvarpi að nauðasamningi er lagt til að allir
kröfuhafar, tryggðir sem ótryggðir, fái allt að einni milljón króna greidda.
Þannig munu eigendur krafna undir einni milljón króna fá kröfur sínar greiddar
að fullu. Samkvæmt frumvarpinu munu ótryggðir kröfuhafar, sem eiga hærri kröfur
en eina milljón, fá 5% af eftirstöðvum kröfu sinnar greidda með hlutafé í
almennum flokki í Stoðum. 

Frumvarp að nauðasamningi og heildarendurskipulagning á fjárhag félagsins miðar
við að Stoðir geti haldið áfram rekstri án vandkvæða næstu ár og lendi ekki í
greiðsluvanda. Þannig geti félagið sinnt eignum sínum og unnið að því að auka
verðmæti þeirra, til hagsbóta fyrir kröfuhafa. Helstu eignir Stoða eru 99%
eignarhlutur í TM og 49% eignarhlutur í Refresco en Stoðir eiga einnig hagsmuni
í félögum á borð við Landic Property, Bayrock og Iceland Foods. Á skrifstofu
Stoða í Hátúni 2b starfa nú sjö manns. 

Frekari upplýsingar:
Stoðir
Júlíus Þorfinnsson
Sími 591 4400
Netfang: julius@stodir.is

Anhänge

stoir frettatilkynning 3 april 2009.pdf