- Ársreikningur 2008


Afkoma VBS fjárfestingarbanka á árinu 2008

Ekki er ofsagt að árið 2008 hafi verið ár breytinga og uppstokkunar á íslenskum
fjármálamarkaði.  Árið var án efa það erfiðasta  í 13 ára sögu VBS
fjárfestingarbanka og einkenndist af þröngri lausafjárstöðu á fyrri hluta árs,
samdrætti á fasteignamarkaði og loks hamförum á íslenskum fjármálamarkaði með
falli Landsbanka, Glitnis og Kaupþings. 

Ársreikningur VBS fjárfestingarbanka fyrir árið 2008 endurspeglar þessar
óvenjulegu aðstæður.  Nýverið var gengið frá samkomulagi um skuldbindingar
bankans við Ríkissjóð.  Skuld þessi varð til vegna milligöngu VBS um
lánafyrirgreiðslu Seðlabanka Íslands til tveggja af hinum föllnu bönkum en við
hrun þeirra setti VBS  tryggingar fyrir skuldinni að upphæð 26 milljarða króna.
 Andvirði lánsins frá ríkissjóði var nýtt til uppgjörs við Seðlabanka og ber að
greiða það á næstu 7 árum með 2% verðtryggðum vöxtum.  Bankinn gekkst undir
margvísleg skilyrði með samkomulaginu, svo sem varðandi lágmarks eigið fé,
takmörkun á arðgreiðslum og fleira.  Með samkomulaginu er tryggt að Ríkissjóður
og þar með skattgreiðendur fái að fullu greiddar skuldbindingar þær sem VBS
fjárfestingarbanki tókst á hendur vegna viðskiptanna.   Í samræmi við lög og
reikningsskilaaðferðir gætir áhrifa samkomulagsins í uppgjöri til hækkunar á
rekstrartekjum. Í heild er því hagnaður eftir skatta 1.1 milljarður króna sem
jafngildir 13,4% ávöxtun eigin fjár á árinu. Eigið fé bankans nemur um 8,9
milljörðum króna og er eiginfjárhlutfall (CAD) 17,4% í árslok árið 2008. 

Starfsmannafjöldi VBS í lok árs 2008 var svipaður því sem var í upphafi árs en
veruleg breyting hefur þó orðið á viðfangsefnum og störfum margra starfsmanna.
Þá hefur áherslan í starfsmannahaldi einkennst af breyttum viðfangsefnum
bankans. Þannig eru fleiri starfandi við umsýslu fasteigna og við fjármögnun,
en færri að störfum við verðbréfamiðlun og eigin fjárfestingar bankans. 
Áætlanir bankans fyrir árið 2009 gera ráð fyrir aðgerðum til enn frekari
styrkingar eigin fjár og hafa nú þegar verið stigin skref í þá átt. Þá er áfram
gert ráð fyrir því að þjónusta við fagfjárfesta, fyrirtæki, einstaklinga og
félagasamtök, verði ríkur þáttur í starfssemi bankans, líkt og verið hefur frá
upphafi. 


Helstu niðurstöður úr ársreikningi VBS fjárfestingarbanka fyrir árið 2008:

•  Hagnaður bankans eftir skatta árið 2008 nam 1,1 milljarði króna sem er 29,3%
   lækkun frá árinu 2007.
 
•  Hagnaður fyrir skatta nam 1,6 milljarði króna, sem er 9,9% lækkun frá árinu
   2007. 

•  Hreinar vaxtatekjur ársins 2008 fyrir færslu fjárskuldar til gangvirðis
   lækkuðu um 23% frá fyrra ári. 

•  Rekstrartekjur án gangvirðisfærslu lækkuðu um 78% en þrefölduðust að henni
   meðtalinni. 

•  Þóknunartekjur drógust saman um 58% á milli ára, námu 624 milljónum króna
   árið 2008 samanborið við 1.497 milljónir árið 2007 .
 
•  Arðsemi eigin fjár fyrir skatta jafngilti 19,2% ávöxtun á ársgrundvelli.

•  Arðsemi eigin fjár eftir skatta jafngilti 13,4% ávöxtun á ársgrundvelli.

•  Heildareignir bankans jukust um 60% milli ára og námu í árslok um 56,3
   milljörðum króna. 

•  Framlög í afskriftareikning útlána námu 6,8 milljörðum króna, í árslok nam
   afskriftareikningurinn 7,3 milljörðum króna. 

•  Handbært fé bankans nam 194 milljónum króna þann 31. desember 2008

•  Eigið fé bankans hefur vaxið um 7,5% á árinu og nam 8,9 milljörðum króna í
   lok ársins 2008 samanborið við 8,3 milljarða króna árið 2007. 

Horfur fyrir árið 2009 
Þegar litið er fram á veginn eru margir óvissuþættir í ytra umhverfi
fjármálastofnanna sem geta haft áhrif á afkomu VBS fjárfestingarbanka sem og
annarra fyrirtækja á Íslandi. Á heildina litið hefur þó ýmislegt áunnist og
þokast í rétta átt.  Það er okkar trú að í erfiðleikunum felist mikilsverð 
viðskiptatækifæri fyrir bankann. Framundan eru því krefjandi verkefni s.s.
umsókn um viðskiptabankaleyfi sem opnar nýja möguleika til útvíkkunar á
starfsemi bankans.  Auk nýrra tækifæra mun bankinn áfram einbeita sér að
eflingu kjarnastarfseminnar með það að markmiði að  leggja sitt af mörkum til
að taka þátt í uppbyggingu íslensks athafnalífs. 

Nánari upplýsingar veitir Jón Þórisson, forstjóri VBS fjárfestingarbanka í síma
842-2202

Anhänge

vbs fjarfestingarbanki - arsreikningur 2008.pdf