Á næstu vikum mun Eimskip og Kiwanishreyfingin gefa öllum börnum í 1. bekk grunnskóla landsins reiðhjólahjálma. Um er að ræða árlegt átak Eimskips og Kiwanishreyfingarinnar, auk þess sem verkefnið nýtur ráðgjafar og stuðnings Forvarnahússins. Alls verða 4200 reiðhjólahjálmar gefnir í ár og mun Eimskip og Kiwanisklúbbar vítt og breitt um landið sjá um dreifinguna. Fyrir fimm árum tók Eimskip höndum saman með Kiwanishreyfingunni í þessu verkefni, og hafa nú hátt í 30 þúsund hjálmar verið gefnir börnum á aldrinum 7-12 ára, sem er tæplega 10% þjóðarinnar. Nemendur í 1. bekk í Norðlingaskóla komu í höfuðstöðvar Eimskips í Reykjavík á fimmtudaginn og voru þau fyrstu börnin til að fá afhenta hjálma í ár. Handknattleikskapparnir Sigfús Sigurðsson og Snorri Steinn Guðjónsson afhentu fyrstu hjálmana, ásamt fulltrúum frá Eimskip og Kiwanis, og vöktu þeir félagar mikla lukku. Þeir brýndu fyrir krökkunum hve mikilvægt það væri að nota hjálma, jafnt fyrir börn og fullorðna. Kiwanisfélagar fara í alla grunnskóla á landinu og afhenda börnunum hjálma og ræða við þau um umferðaröryggi og notkun hjálmanna. Að auki fá börnin fræðsluefni um rétta stillingu og notkun hjálma til að taka með sér heim. Þetta árið verða þúsundir íslenskra skólabarna öruggari í umferðinni með hjálma merkta Eimskip og Kiwanis. Þetta verkefni hefur vakið mikla athygli víðsvegar um heim og eru dæmi þess að erlendir aðilar hafi tekið það upp, meðal annars í Bandaríkjunum.
Eimskip og Kiwanis gefa öllum sjö ára börnum reiðhjólahjálma
| Quelle: Hf. Eimskipafélag Íslands