Í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar er nú unnið að breytingum á stjórnskipulagi félagsins. Markmiðið er að einfalda skipulag, ná fram hagræðingu í rekstri og reka áfram öflugt Eimskip sem er leiðandi í flutningastarfsemi á Norður-Atlantshafi. Starfsemi Eimskips á Íslandi mun í grófum dráttum skiptast í tvær einingar, annars vegar Sölu og þjónustu og hins vegar Eimskip innanlands. Unnið er að frekari breytingum á heildarskipulagi félagsins og mun verða tilkynnt um þær fyrir lok júlímánaðar. Matthías Matthíasson hefur verið ráðinn í starf framkvæmdastjóra Sölu og þjónustu á Íslandi. Undir Sölu og þjónustu fellur sala í inn- og útflutningi ásamt þjónustu og skjalavinnslu. Matthías hóf upphaflega störf hjá Eimskip árið 1983 og starfaði til ársins 2004. Matthías var m.a. sölustjóri í millilandaflutningum, forstöðumaður inn-og útflutnings og framkvæmdastjóri Eimskip UK. Hann hóf störf að nýju hjá Eimskip í apríl síðastliðnum, þá sem framkvæmdastjóri sérverkefna. Matthías vinnur nú að því að ljúka ýmsum sérverkefnum, m.a. á skrifstofu Eimskips í Hamborg og kemur að fullu til starfa á Íslandi um miðjan júlí. Guðmundur Nikulásson mun taka við starfi framkvæmdastjóra Eimskips innanlands og fellur þar undir rekstur á innanlandskerfi félagsins, rekstur Vöruhótels, Flytjanda, vörudreifingar á höfuðborgarsvæðinu, hafnarsvæða á Íslandi og frysti- og kæligeymslna. Guðmundur hefur starfað hjá Eimskip síðan 1997 og gegnt ýmsum trúnaðar- og stjórnunarstöðum. Starfslok Í ljósi skipulagsbreytinga mun Guðmundur P. Davíðsson, framkvæmdastjóri Eimskips á Íslandi, láta af störfum hjá Eimskip. Hann hóf störf hjá félaginu í september 2007. Guðmundur stýrði starfsemi Eimskips á Íslandi sem nú hefur verið skipt niður í tvö svið, Sölu og þjónustu og Eimskip innanlands, sem heyra beint undir Gylfa Sigfússon forstjóra. Eimskip þakkar Guðmundi fyrir farsæl störf í þágu félagsins og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.
- Skipulagsbreytingar
| Quelle: Hf. Eimskipafélag Íslands