Endurskipulagning íslenska eignasafns Landic Property í sjónmáli


Landic Property hefur undirritað samning við NBI, Nýja Kaupþing, Íslandsbanka
og Glitni um fjárhagslega endurskipulagningu innlends fasteignasafns síns.  
Samningurinn styrkir rekstur innlendra dótturfélaga Landic Property, en
fasteignarekstur Landic Property á Íslandi gengur vel og er samkvæmt áætlun.
Fasteignasafn félagsins samanstendur af 120 fasteignum, samtals meira en 400
þúsund fermetrum af góðu verslunar- og skrifstofuhúsnæði á kjörsvæðum, einkum
miðsvæðis í Reykjavík. Meðal eigna félagsins eru Kringlan og Hilton
Reykjavík Nordica. 

Síðastliðna mánuði hefur verið unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu
móðurfélagsins, Landic Property hf, og sölu á erlendum fasteignasöfnum
félagsins og er sú vinna enn í gangi. En félagið mun í framtíðinni einbeita sér
að rekstri fasteigna á Íslandi. Félagið er að ganga frá sölu á Magasin og Illum
fasteignunum og unnið er að sölu á danska fasteignasafninu Atlas I. 

Viðar Þorkelsson, forstjóri Landic Property:
„Samningurinn við íslensku bankana styrkir íslenska fasteignafélagið til
frambúðar og festir það í sessi sem traust fasteignafélag á Íslandi. 
Samstarfið við þá hefur verið mjög gott og sameiginleg aðkoma þeirra verið
lykilatriði í því að verja innlendar eignir félagsins. Um leið sýnir þetta að
bankarnir geta unnið saman úr flóknum úrlausnarefnum í því erfiða
efnahagsástandi sem nú ríkir.“ 

Frekari upplýsingar veitir:
Viðar Þorkelsson
forstjóri Landic Property hf.
Sími 575 9000
E-mail: vth@landicproperty.com