Exista hefur borist stefna frá skilanefnd Kaupþings banka hf. þar sem gerðar eru þær dómkröfur að Exista greiði bankanum samtals tæplega 20,1 milljarð króna vegna gjaldmiðlasamninga sem upphaflega voru gerðir við Kaupþing banka hf. Skilanefnd Kaupþings banka hf. krefst einnig viðurkenningar á rétti til innstæðu á bankareikningi Exista í Nýja Kaupþingi banka hf. að fjárhæð tæplega 12,9 milljarða króna. Exista mun taka til varna í málinu enda telur félagið skilanefnd Kaupþings banka hf. ekki eiga rétt til innstæðu á bankareikningi félagsins hjá Nýja Kaupþingi. Þá telur Exista að félagið eigi kröfur á Kaupþing banka hf. á grundvelli gjaldmiðlasamninganna. Gjaldmiðlasamningarnir við Kaupþing banka hf. voru gerðir til að verjast gengissveiflum, meðal annars í íslensku krónunni, en Exista færði reikninga sína í evrum þar sem meirihluti eigna og skulda félagsins voru í erlendum gjaldmiðlum. Þrátt fyrir að Exista hafi með þessum hætti leitast við að verja eigið fé sitt þá hafði lækkun krónunnar neikvæð áhrif á eigið fé Exista. Félagið hefur allt frá hruni íslenska fjármálakerfisins í október 2008 leitast við að ná samningum við skilanefnd Kaupþings banka hf. um uppgjör gagnkvæmra krafna en hefur ekki getað sótt rétt sinn fyrir dómstólum vegna ákvæða laga nr. 125/2008 („neyðarlaganna“). Telur Exista því jákvætt að málið sé nú komið í þann farveg að niðurstaða fáist fyrir dómstólum um slíkt uppgjör.
- Exista stefnt af skilanefnd Kaupþings banka hf.
| Quelle: Exista hf.