Bankasýsla ríkisins hefur tekið við eigandahlutverki í viðskiptabönkunum þremur. Lúkning samninga við kröfuhafa verður þó áfram á hendi fjármálaráðherra. Bankasýslan fer samkvæmt lögum með eigandahlutverk ríkisins í fjármálafyrirtækjum sem stjórnvöld hafa tekið ákvörðun um að eignast hlut í. Þeim sem þurfa að hafa samband við ríkið vegna eignarhluta þess í viðskiptabönkunum er bent á að hafa samband við Bankasýsluna. Eins og áður hefur komið fram skipa stjórn Bankasýslu ríkisins þau Þorsteinn Þorsteinsson rekstrarhagfræðingur, stjórnarformaður, Sonja María Hreiðarsdóttir lögmaður, varaformaður, Sigurður B. Stefánsson hagfræðingur og Guðrún Johnsen hagfræðingur til vara. Í samræmi við lög um Bankasýsluna hefur stjórnin skipað valnefnd til að tilnefna fulltrúa ríkisins til setu í stjórnum fjármálafyrirtækjanna. Í henni eiga sæti Kristín Rafnar forstöðumaður skráningarsviðs Nasdaq OMX, formaður, Friðrik Már Baldursson forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík og Helga Valfells sérfræðingur fjárfestinga hjá Nýsköpunarsjóði Atvinnulífsins. Unnið er að gerð vefseturs fyrir Bankasýsluna og þar mun fólk sem telur sig uppfylla hæfisskilyrði fyrir setu í bankaráðum og stjórnum fjármálafyrirtækja geta gefið kost á sér. Stjórnin hefur samþykkt starfsreglur valnefndarinnar. Samkvæmt samningum við skilanefndir gömlu bankanna á ríkið rétt á að kjósa einn mann í bankaráð Íslandsbanka, fjóra menn í bankaráð Nýja Kaupþings sem þó fækkar í einn ef Kaupþing ákveður að yfirtaka meirihlutann í Nýja Kaupþingi og ennfremur fjóra menn í bankaráð Landsbankans. Þá hefur stjórn Bankasýslunnar auglýst starf forstjóra stofnunarinnar laust til umsóknar og rennur umsóknarfresturinn út 2. nóvember. Fjármálaráðuneytinu, 27. október 2009 ------ Sem viðhengi fylgir auk fréttatilkynningarinnar samþykktar starfsreglur valnefndarinnar. Nánari upplýsingar veitir: Þorsteinn Þorsteinsson, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins. Netfang: thorsteinn.thorsteinsson@bankasysla.is Sími: 891-8913.
- Bankasýslan tekur við eigendahlutverki ríkisins í fjármálafyrirtækjum og skipar valnefnd til að undirbúa stjórnarkjör í bönkunum
| Quelle: Ríkissjóður Íslands