Stjórn Landsvaka hf., rekstrarfélag verðbréfa- og fjárfestingasjóða Landsbankans, hefur tekið ákvörðun um sameiningu verðbréfasjóðsins Markaðsbréf Landsbankans – meðallöng við verðbréfasjóðinn Sparibréf – meðallöng. Síðarnefndi sjóðurinn hefur eingöngu heimild til að fjárfesta í íslenskum ríkisskuldabréfum og kröfum á íslenska ríkið og hefur sama leyfilega meðallíftíma og Markaðsbréf Landsbankans – meðallöng. Þegar ákvörðun um sameiningu sjóðanna var tekin voru einungis ríkisskuldabréf/kröfur með ríkisábyrgð í verðbréfasjóðnum Markaðsbréf Landsbankans – meðallöng. Sameiningin var gerð með hagsmuni hlutdeildarskírteinishafa að leiðarljósi. Tilgangur rekstrarfélagsins með þessu var að ná fram auknu gagnsæi og auðvelda fjárfestum að gera sér grein fyrir þeirri áhættu sem felst í fjárfestingum í sjóðum sem eru í stýringu hjá Landsvaka.
Hlutdeildarskírteinishafar sjóðsins fengu bréf þann 26. apríl síðastliðinn þar sem þeim var tilkynnt um sameininguna. Sameiningin fór fram þann 20. maí síðastliðinn með flutningi allra verðbréfa í eigu Markaðsbréfa Landsbankans –meðallangra í Sparibréf Landsbankans – meðallöng. Eign hlutdeildarskírteinishafa fluttist sjálfkrafa yfir í Sparibréf Landsbankans – meðallöng og enginn kostnaður féll á hlutdeildarskírteinishafa við þessa aðgerð.
Beiðni um afskráningu sjóðsins Markaðsbréf Landsbankans – meðallöng hefur verið send Kauphöll.
Frekari upplýsingar veitir framkvæmdastjóri Landsvaka hf. Ari Skúlason í síma 410-7406