Tap Reita II ehf. á fyrri árshelmingi ársins 2012 nam 3.001 milljón króna samanborið við 572 milljóna króna tap á sama tímabili árið áður. Rekstrarhagnaður félagsins á tímabilinu batnaði nokkuð frá fyrra ári og nam 576 milljónum króna samanborið við 530 milljónir króna árið áður.
Stærstan hluta taps félagsins á tímabilinu má rekja til endurmats á fjárfestingareignum félagsins en matsbreyting Reita II á fyrstu sex mánuðum ársins var neikvæð um 2.381 milljón krónur. Endurmat fjárfestingareigna kemur í kjölfar skráningar fasteignafélagsins Regins í kauphöll í sumar. Með skráningunni var sett viðmið varðandi verðlagningu fasteignafélaga hér á landi en undanfarin ár hefur markaðurinn verið grunnur og lítið til af upplýsingum eins og bent hefur verið á í uppgjörum félagsins.
Áfram er gert ráð fyrir bata í rekstri félagsins en líkt og fyrr má vænta neikvæðrar afkomu vegna fjármagnsliða. Móðurfélag Reita II, Reitir fasteignafélag hf., hyggur á skráningu í kauphöll á árinu 2012 og í aðdraganda hennar er unnið að endurfjármögnun skulda samstæðunnar, að skuldum Reita II meðtöldum.
Í lok júní 2012 var eigið fé Reita II neikvætt um 1.099 milljónir króna. Væntingar stjórnar og stjórnenda eru þær að eigið fé félagsins verði jákvætt í kjölfar endurfjármögnunar og sölu á nýju hlutafé í móðurfélaginu í tengslum við skráningu í kauphöll.
Lykiltölur:
- Heildareignir námu 18.470 milljónum króna þann 30. júní 2012.
- Eigið fé félagsins nam -1.099 milljónum króna á sama tíma.
- Rekstrartekjur fyrri árshelmings námu 826 milljónum króna samanborið við 777 milljónir króna á sama tíma árið áður.
Reitir II á og rekur 18 fasteignir á Íslandi og er félagið eitt af 7 dótturfélögum í 100% eigu Reita fasteignafélags. Upplýsingar um afkomu móðurfélagsins, Reita fasteignafélags, má finna á www.reitir.is.
Nánari upplýsingar veitir:
Einar Þorsteinsson, fjármálastjóri Reita
Sími 575 9000
einar@reitir.is