Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar

Skattar lækka í Kópavogi


Tillaga að fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir næsta ár var lögð fram á bæjarstjórnarfundi nú síðdegis sem hófst kl. 16:00. Með fylgir tillagan sem og tilkynning til fjölmiðla.

 

Skattar lækka í Kópavogi

 

Fasteignagjöld af íbúðar- og atvinnuhúsnæði, vatnsskattur og sorphirðugjöld lækka í Kópavogi í upphafi næsta árs, samkvæmt tillögu meirihluta bæjarstjórnar að fjárhagsáætlun fyrir árið 2013. Tillagan var lögð fram til fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi síðdegis í dag.

 

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri segir að með fjárhagsáætluninni sé tónninn gefinn og fyrstu skrefin tekin að lækkun á skattbyrði íbúa bæjarins. „Er þetta í samræmi við stefnuyfirlýsingu meirihlutans um að fasteignagjöld á íbúðir og fyrirtæki og önnur gjöld verði endurskoðuð með lækkun í huga,“ segir hann.

 

Áhersla er lögð á lækkun skulda og reiknað með að inn á þær verði greiddir rúmir tveir milljarðar á næsta ári. Gert er ráð fyrir að skuldahlutfall Kópavogsbæjar, þ.e.a.s. skuldir sveitarfélagsins deilt með rekstrartekjum, lækki úr 244% niður í 206%. Samkvæmt lögum eiga sveitarfélög að vera búin að ná þessu hlutfalli niður fyrir 150% fyrir 1. janúar 2023. Ef fram heldur sem horfir nær Kópavogsbær þessu viðmiði í síðasta lagi árið 2018.

 

Markmiðum fjárhagsáætlunarinnar á að ná með þéttu aðhaldi í rekstri bæjarins án þess að beita niðurskurði. Þjónustugjöld eru látin fylgja verðlagi. Lögð er áhersla á að veita öfluga grunnþjónustu á öllum sviðum, svo sem í leikskólum, grunnskólum og félagsþjónustu. Niðurgreiðsla bæjarins til íþróttaiðkunar barna og unglinga hækkar um 12,5%.

Rekstrarafgangur samstæðu Kópavogsbæjar verður 126 milljónir króna á næsta ári samkvæmt áætluninni og veltufé frá rekstri 2.860 milljónir. Af framkvæmdum á árinu má nefna byggingu nýs 870 fermetra leikskóla í Austurkór, sem tekinn verður í notkun í ársbyrjun 2014. Kostnaður við byggingu leikskólans enmur tæpum 307 milljónum króna.

„Fjárhagsáætlunin sýnir að Kópavogsbæ er að takast að vinna hratt og vel úr þeim vanda sem skapaðist í kjölfar efnahagsáfallsins árið 2008 og mun betur heldur en raunsæir menn þorðu að vona en þar kemur til góður rekstur og sala lóða,“ segir Ármann Kr. Ólafsson.

 

Breyting gjalda:

  • Fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði lækkar úr 0,32% í 0,29% (um 9,4)
  • Fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði lækkar úr 1,65% í 1,64% (um 0,6%)
  • Fasteignaskattur á hesthús lækkar úr 0,625% í 0,59% (um 5,6%)
  • Vatnsskattur lækkar úr 0,135% í 0,12% (um 11,1%)
  • Sorphirðugjald lækkar úr 23.300 kr. í 21.000 kr. (um 9,9%)

 


Anhänge

Fjárhagsáætlun 2013 - Fyrri umræða - 13.11.12.pdf Fjárhagsáætlun 2014-6 - Fyrri umræða - 13.11.12.pdf