Á undanförnum mánuðum hafa Reitir fasteignafélag í samstarfi við Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka unnið að endurfjármögnun félagsins. Viðræður hafa átt sér stað milli Reita og Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, Gildis-lífeyrissjóðs og Eignastýringar fagfjárfesta hjá Arion banka, sem meðal annars er með eignir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Eftirlaunasjóðs atvinnuflugmanna í stýringu, um aðkomu þeirra að félaginu. Í dag var undirrituð viljayfirlýsing um kaup þessara aðila á nýju hlutafé í Reitum fasteignafélagi að fjárhæð 12 ma.kr. og nýjum verðtryggðum skuldabréfaflokki að fjárhæð 25 ma.kr. útgefnum af félaginu. Kjör hlutafjáraukningarinnar miðast við að tekjuberandi fjárfestingaeignir Reita fasteignafélags séu metnar á 7,0% verðtryggðri ávöxtunarkröfu og skuldabréfin verða seld á 4,0% verðtryggðri ávöxtunarkröfu. H.F. Verðbréf var ráðgjafi lífeyrissjóðanna í samningaviðræðunum.
Jafnframt hafa Reitir fasteignafélag náð samningum við Íslandsbanka um allt að 14 ma.kr. lánveitingu til félagsins á umtalsvert hagstæðari kjörum en núverandi fjármögnun.
Framangreind endurfjármögnun félagsins er háð viðunandi niðurstöðu í málefnum Reita fasteignafélags, Seðlabanka Íslands og Hypothekenbank Frankfurt AG um lánveitingu þess síðastnefnda til félagsins í erlendri mynt. Þá er fyrirvari gerður við skjalagerð vegna útgáfu skuldabréfanna og lánveitingarinnar, endanlega niðurstöðu áreiðanleikakönnunar á félaginu og samþykki stjórna lífeyrissjóðanna sem og hluthafa og stjórnar Reita.
Stefnt er að því að endurfjármögnun Reita fasteignafélags verði lokið fyrir árslok 2013. Horft er til þess að skrá hlutafé félagsins á Nasdaq OMX á Íslandi vorið 2014.
Nánari upplýsingar veitir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita fasteignafélags, í síma 660-3320 og Einar Þorsteinsson, fjármálastjóri Reita fasteignafélags, í síma 669-4416.