Tillaga að fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2014 og áætlun 2015-2017

Rekstur heldur áfram að batna


Rekstur Kópavogsbæjar heldur áfram að batna og er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur verði um 642 milljónir króna á næsta ári. Þetta kemur fram í tillögu að fjárhagsáætlun ársins 2014 sem meirihlutinn lagði fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar í dag. Þar er lagt til að fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði verði lækkaður annað árið í röð og að skuldir verði áfram lækkaðar um rúma tvo milljarða að teknu tilliti til verðbóta.

 

Í áætluninni er gert ráð fyrir að fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði lækki úr 0,29% í 0,27% eða um tæp 7%. Þessi sami skattur var lækkaður um 9,4% á þessu ári. Einnig er lagt til að vatnsskattur lækki, sömuleiðis annað árið í röð, og nú úr 0,12% af fasteignamati í 0,10%. Þetta þýðir svo dæmi sé tekið að fasteignagjöld á 134 fermetra íbúð lækka í krónum talið um rúmlega 30 þúsund krónur frá álagningarárinu 2012, miðað við fasteignamat ársins 2014. Aðrir skattar og gjöld verða óbreytt á milli ára eða hækka í samræmi við vísitölu fjárhagsáætlunarinnar.

 

Lækkun skulda á næsta ári er í takt við þá stefnu síðustu ára að leggja megin áherslu á niðurgreiðslu lána. Samkvæmt áætluninni verður skuldahlutfallið, þ.e.a.s. skuldir á móti rekstrartekjum, í lok næsta árs 189% en í sveitarstjórnarlögum er miðað við að sveitarfélög að hafa náð skuldahlutfallinu niður fyrir 150% í janúar 2023. Samkvæmt langtímaáætlun Kópavogsbæjar næst þetta hlutfall á árinu 2017, eða mun fyrr en lögin krefja.

 

Heildarútgjöld bæjarins verða skv. áætluninni 21,4 milljarðar króna á næsta ári en tekjur 22 milljarðar. Veltufé frá rekstri verða rúmir þrír milljarðar króna en það sýnir getu bæjarins til framkvæmda og niðurgreiðslu lána. Á næsta ári eru fyrirhugaðar nauðsynlegar framkvæmdir á borð við  stækkun Hörðuvallaskóla,  að klára nýjan leikskóla í Austurkór og þjónustuíbúðir fyrir fatlaða, svo dæmi séu nefnd.

 

Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands er höfð til hliðsjónar við gerð áætlunarinnar en spáin gerir ráð fyrir 3% verðbólgu á árinu 2014.

 

Nánari upplýsingar veitir: Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri


Anhänge

Áætlun 2014-fyrri umræða-22-10-2013.pdf Áætlun 2015-2017-fyrri umræða 22-10-2013.pdf