Útgefandi: HB Grandi hf., kennitala 541185-0389, Norðurgarður 1, 101 Reykjavík.
HB Grandi hf. („HB Grandi“) birti lýsingu þann 27. mars 2014, í tengslum við almennt útboð á hlutum í félaginu og ósk stjórnar félagsins um að öll útgefin hlutabréf í HB Granda verði tekin til viðskipta á Aðalmarkaði NASDAQ OMX Iceland hf. Lýsingin er dagsett 27. mars 2014, gefin út á íslensku og birt á vefsíðu félagsins, http://www.hbgrandi.is/Um-HB-Granda/Fjarfestar.
Lýsinguna má nálgast hjá félaginu næstu 12 mánuði, en hún er gefin út rafrænt á vefsíðu félagsins. Lýsinguna má einnig nálgast á vefsíðu Arion banka hf., umsjónaraðila almenna útboðsins, á vefsíðunni www.arionbanki.is. Frá 31. mars 2014 má jafnframt nálgast innbundin eintök lýsingarinnar hjá HB Granda á Norðurgarði 1, 101 Reykjavík og hjá Arion banka hf. í Borgartúni 19, 105 Reykjavík.
Heildarfjöldi útgefinna hluta í HB Granda nemur 1.822.228.000, en þar af á félagið eigin hluti sem nema 0,47% af heildarfjölda hlutanna. Allir útgefnir hlutir í félaginu eru í sama flokki og jafn réttháir. Hlutir í félaginu eru gefnir út rafrænt í kerfi Verðbréfaskráningar Íslands hf. og er hver hlutur 1 króna að nafnverði. Auðkenni hlutanna hjá Verðbréfaskráningu Íslands hf. er GRND og ISIN númer þeirra er IS0000000297. Óskað er eftir því að GRND verði auðkenni hlutabréfanna í kerfum NASDAQ OMX Iceland hf.
Almennt útboð 7. - 10. apríl 2014
Arion banki hf., Vogun hf. og Fiskveiðahlutafélagið Venus hf. hyggjast selja þegar útgefna hluti í HB Granda í almennu útboði sem fyrirtækjaráðgjöf fjárfestingarbankasviðs Arion banka hf. hefur umsjón með. Stærð útboðsins nemur 27% af útgefnum hlutum, nánar tiltekið 492.001.560 hlutum. Arion banki hf. áskilur sér rétt til að stækka útboðið í allt að 583.112.960 hluti eða sem samsvarar 32% af áður útgefnu hlutafé. Á vefsíðu umsjónaraðila útboðsins, www.arionbanki.is, verður tekið við áskriftum frá og með mánudeginum 7. apríl 2014 klukkan 16.00 til og með fimmtudeginum 10. apríl 2014 klukkan 16.00. Lágmarksáskrift er að andvirði 100 þúsund krónur. Fjárfestum er boðið upp á tvær áskriftarleiðir, eða svokallaðar tilboðsbækur. Ákvörðun á verði þeirra hluta sem seldir verða í útboðinu verður ekki með sama hætti í báðum tilboðsbókum útboðsins. Í tilboðsbók A óska seljendur eftir áskriftum á verðbilinu 26,6-32,5 krónur á hlut. Eftir lok áskriftartímabilsins munu seljendur ákvarða eitt endanlegt útboðsgengi til allra kaupenda sem þátt tóku í tilboðsbók A, en það mun verða á framangreindu verðbili. Í tilboðsbók B er tekið við áskriftum sem eru að lágmarki á verðinu 26,6 krónur á hlut, en öllum hlutum sem seldir verða í tilboðsbók B verður úthlutað á sama verði, sem verður jafnt eða hærra en endanlegt útboðsgengi í tilboðsbók A. Gert ráð fyrir að bjóða samtals 8,50% af útgefnum hlutum í tilboðsbók A og 18,50% í tilboðsbók B. Hyggst Arion banki hf. selja 20% í útboðinu (6,30% í tilboðsbók A og 13,70% í tilboðsbók B), en áskilur sér rétt til að auka það í 25%. Hyggst Vogun hf. selja 4,3% (1,35% í tilboðsbók A og 2,95% í tilboðsbók B). Fiskveiðahlutafélagið Venus hf. hyggst selja 2,7% (0,85% í tilboðsbók A og 1,85% í tilboðsbók B). Seljendur áskilja sér rétt til að ákvarða hvernig stækkun útboðsins, ef til kemur, verður ráðstafað milli tilboðsbóka A og B.
Markmið seljenda með útboðinu er annars vegar að það geri HB Granda kleift að uppfylla skilyrði NASDAQ OMX Iceland hf. um dreifingu hlutabréfa sem tekin eru til viðskipta á Aðalmarkaði kauphallarinnar og hins vegar horfa seljendur til þess að selja eign sína á sem hagstæðustu verði.
Seljendur áskilja sér rétt til að falla frá útboðinu ef NASDAQ OMX Iceland hf. hafnar umsókn útgefanda um að hlutabréf í HB Granda verði tekin til viðskipta á Aðalmarkaði kauphallarinnar eða samþykkir hana ekki í síðasta lagi 30. júní 2014. Seljendur áskilja sér jafnframt rétt til að fresta útboðinu, framlengja það eða falla frá útboðinu hvenær sem er fram að tilkynningu NASDAQ OMX Iceland hf. um að hlutabréf í HB Granda verði tekin til viðskipta ef upp koma einhverjir þeir áhrifaþættir sem seljendur telja að gefi tilefni til þess, svo sem sérlega neikvæð þróun á efnahagsumhverfi og/eða verðbréfamarkaði á Íslandi.
Niðurstöður útboðs verða birtar almenningi á Evrópska efnahagssvæðinu í síðasta lagi mánudaginn 14. apríl 2014. Stjórn HB Granda mun óska eftir að öll útgefin hlutabréf í HB Granda verði tekin til viðskipta á Aðalmarkaði NASDAQ OMX Iceland hf. Í kjölfar þess að lýsingin hefur verið staðfest af Fjármálaeftirlitinu á Íslandi mun NASDAQ OMX Iceland hf. fara yfir umsóknina og tilkynna opinberlega hvort hún verði samþykkt og þá að hlutirnir verði teknir til viðskipta á Aðalmarkaði og samhliða úr viðskiptum á First North markaðstorgi. Tilkynningin mun einnig greina frá hvenær fyrsti mögulegi viðskiptadagur verði með hlutina á hinum skipulega verðbréfamarkaði, en NASDAQ OMX Iceland hf. tilkynnir slíka dagsetningu með að lágmarki eins viðskiptadags fyrirvara.
Nánari upplýsingar
Fyrirtækjaráðgjöf fjárfestingabankasviðs Arion banka hf. hefur umsjón með almenna útboðinu og því ferli að fá hluti félagsins tekna til viðskipta á Aðalmarkaði NASDAQ OMX Iceland hf. Nánari upplýsingar um félagið og skilmála almenna útboðsins má finna í lýsingu HB Granda.