"Þessi tilkynning er aðgengileg á vefsetri Seðlabanka Íslands. Hún hefur ekki verið birt opinberlega á Evrópska efnahagssvæðinu af hálfu Seðlabanka Íslands, sbr. skilgreiningu laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
Vísað er til vefseturs Seðlabanka Íslands http://sedlabanki.is"
Seðlabankinn hefur ákveðið að hefja á ný reglubundin gjaldeyriskaup á millibankamarkaði með gjaldeyri með líkum hætti og gert var á tímabilinu 31. ágúst 2010 til ársloka 2012. Þá keypti bankinn fyrst 500 þúsund evrur af hverjum viðskiptavaka vikulega og síðar eina milljón evra af hverjum viðskiptavaka í hverri viku. Samtals keypti bankinn með þessum hætti erlendan gjaldeyri að jafnvirði 33,3 ma.kr. eða 216 milljónir evra.
Seðlabankinn hætti reglubundnum gjaldeyriskaupum í árslok 2012. Frá því um miðjan maí 2013 hefur Seðlabankinn haft virkari afskipti af gjaldeyrismarkaðinum en áður og beitt inngripum í því skyni að draga úr sveiflum í gengi krónunnar. Verður þeirri stefnu haldið áfram þótt reglubundin gjaldeyriskaup hefjist á ný. Á tímabilinu frá 15. maí 2013 hefur Seðlabankinn keypt 288 milljónir evra, að jafnvirði 45,1 ma.kr., og selt 21 milljón evra, að jafnvirði 3,4 ma.kr. Hrein gjaldeyriskaup bankans námu 41,7 ma.kr. á tímabilinu. Á yfirstandandi ári nema hrein gjaldeyriskaup Seðlabankans 222 milljónum evra eða sem samsvarar 34,5 ma.kr. Seðlabankinn hefur því að jafnaði keypt rúmlega 9 milljónir evra á viku hverri það sem af er árinu.
Seðlabankinn hyggst núna kaupa 3 milljónir evra á gjaldeyrismarkaði í hverri viku til loka september nk. Kaupin munu fara fram á þriðjudögum strax eftir opnun gjaldeyrismarkaðar, en færast til næsta viðskiptadags ef þriðjudagur er frídagur. Fyrstu kaup verða miðvikudaginn 18. júní nk.
Umfang reglulegra gjaldeyriskaupa verður endurmetið í haust eða fyrr ef aðstæður breytast umtalsvert. Ákvörðun þessi er tekin með hliðsjón af umtalsverðu gjaldeyrisinnstreymi undanfarna mánuði og horfum um áframhaldandi innflæði næstu mánuði, hækkun raungengis krónunnar undanfarin ár og verðbólguþróun.
Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 5699600.