Reglum um gjaldeyrismál breytt til að milda áhrif stöðvunar óheimils sparnaðar erlendis


"Þessi tilkynning er aðgengileg á vefsetri Seðlabanka Íslands. Hún hefur ekki verið birt opinberlega á Evrópska efnahagssvæðinu af hálfu Seðlabanka Íslands, sbr. skilgreiningu laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

Vísað er til vefseturs Seðlabanka Íslands http://sedlabanki.is"

 

Seðlabanki Íslands hefur um nokkra hríð haft til skoðunar hvort samningar erlendra tryggingafélaga sem boðnir hafa verið til sölu hér á landi séu í samræmi við lög og reglur um gjaldeyrismál. Athugun bankans hefur leitt í ljós að ýmsar tegundir samninga fela í sér óheimilan sparnað eða söfnun erlendis. Slíkir samningar varða fjölda innlendra einstaklinga og hafa umsvif og útflæði fjármagns vegna þeirra aukist verulega eftir höft. Til þess að gæta að hagsmunum þessara einstaklinga og gera þeim kleift að viðhalda samningssambandi sínu á grundvelli breyttra skilmála, mun Seðlabankinn gefa út nýjar reglur um gjaldeyrismál. Reglurnar verða birtar í Stjórnartíðindum á morgun og taka gildi daginn eftir, eða þann 19. júní 2014. Með reglunum er erlendum tryggingafélögum jafnframt veittar fjárfestingarheimildir til samræmis við innlenda aðila. 

Samkvæmt lögum um gjaldeyrismál sem tóku gildi hinn 28. nóvember 2008, takmarka fjármagnshöftin ekki vöru- og þjónustuviðskipti. Iðgjaldagreiðslur samkvæmt samningum um vátryggingar, t.d. líf- sjúkdóma- eða slysatryggingar, teljast kaup á þjónustu og eru því heimilar skv. lögum um gjaldeyrismál. Hins vegar takmarka fjármagnshöftin greiðslur vegna samninga sem fela í sér söfnun eða sparnað erlendis, óháð því hvaða nafni þeir nefnast, nema slíkir samningar hafi komist á fyrir innleiðingu fjármagnshafta. Mörkin þarna á milli eru hins vegar í raun ekki alltaf glögg, t.d. þegar sami samningur innifelur bæði vátryggingar og sparnað. Það ásamt því að Seðlabankinn taldi nauðsynlegt að skilningur annarra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á þessum mörkum væri sá sami og bankans, skýrir meðal annars af hverju ekki hefur verið gripið til ofangreindra ráðstafana fyrr.

Seðlabankinn hefur leitað leiða til þess að lágmarka hugsanlegt óhagræði þeirra fjölmörgu einstaklinga sem gert hafa slíka samninga við erlend tryggingafélög sem orðið getur við það að fjármagnsflutningar vegna sparnaðar verða stöðvaðir. Við gerð nýrra reglna Seðlabankans um gjaldeyrismál hefur það sjónarmið því verið haft að leiðarljósi að gera einstaklingum kleift að viðhalda samningssambandi sínu við erlend tryggingafélög, í stað þess að stöðva greiðslur. Í því felst að samningar verði í íslenskum krónum og söfnun og sparnaður á sér stað hérlendis. Til þess að gefa þjónustuaðilum svigrúm til þess að aðlaga fyrirkomulag iðgjaldagreiðslna að framkvæmd sem samrýmist íslenskum lögum verður veitt fjögurra mánaða aðlögunartímabil. Á þeim tíma geta rétthafar efnt samninga í erlendum gjaldeyri sem gerðir voru fyrir gildistöku reglnanna, samhliða því sem unnið er að viðeigandi breytingum á skilmálum samninganna.

Seðlabankinn leggur áherslu á að tryggingafélög sem í hlut eiga geri svo fljótt sem auðið er viðeigandi breytingar á skilmálum samninga sem fela í sér óheimilan sparnað eða söfnun erlends. Einstaklingar ættu ekki að þurfa að bregðast við að svo stöddu, en geta haft samband við þjónustuaðila erlendu tryggingafélaganna óski þeir nánari upplýsinga. Ekki verður hafin rannsókn á einstaklingum sem gert hafa samninga um sparnað við erlent tryggingafélag eða þeim gert að innleysa höfuðstól slíkra samninga. 

Mikilvægt er að allir aðilar að þessu máli vinni saman að því að lágmarka neikvæð áhrif á einstaklinga þannig að samningsskuldbindingum þeirra verði viðhaldið, en í samræmi við lög og reglur um gjaldeyrismál.


Auk fyrrnefndra breytinga, varða reglurnar heimildir erlendra aðila til að selja fjármálagerninga útgefna í innlendum gjaldeyri og fasteignir hér á landi. Aðrar breytingar sem gerðar eru fela að mestu í sér orðalagsbreytingar til að tryggja samræmi í skýringu og túlkun þeirra. 

Nýjar reglur um gjaldeyrismál, má finna hér. Þær taka eins og áður sagði gildi 19. júní 2014. 
Spurt og svarað um gjaldeyrismál, má finna hér. 

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson, seðlabankastjóri 569-9600.