NASDAQ OMX Iceland hf. hefur samþykkt að Straumur fjárfestingabanki hf. verði viðurkenndur ráðgjafi (e. Certified Adviser, CA) á First North Iceland. Hlutverk CA felst í að vera félagi til ráðgjafar og aðstoðar þegar skráningarferlið stendur yfir og vera ráðgjafi og milliliður í samskiptum við markaðinn meðan bréf félags eru til viðskipta á markaðnum. CA fyrirkomulagið er hannað til að byggja traustan markað þar sem CA ber ábyrgð á að fylgjast með því að félög uppfylli ávallt þær aðgangskröfur og upplýsingaskyldu sem gildir á First North.
Til að gerast CA á First North þurfa fyrirtæki að uppfylla ákveðin skilyrði. Þau helstu eru að CA þarf að:
- vera lögaðili
- hafa nægilega marga starfsmenn
- tryggja að starfsmenn CA séu hæfir og búi yfir nægilegri reynslu í fjármálaþjónustu við fyrirtæki
- setja innri reglur um viðskipti með hluti í félögum sem fyrirtækið starfar fyrir sem CA
- hafa verklag og vinnureglur um skráningu og vistun upplýsinga
First North Iceland býður Straum fjárfestingabanka hf. velkomið til starfa sem Certified Adviser.