"Þessi tilkynning er upprunalega birt á vefsetri Seðlabanka Íslands. Hún hefur ekki verið birt opinberlega á Evrópska efnahagssvæðinu af hálfu Seðlabanka Íslands, sbr. skilgreiningu laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
Vísað er til vefseturs Seðlabanka Íslands http://sedlabanki.is"
Af gefnu tilefni vill Seðlabanki Íslands ítreka að frá innleiðingu fjármagnshafta hinn 28. nóvember 2008 hafa gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar á milli landa á grundvelli samninga, þar sem iðgjaldagreiðslum er varið til söfnunar höfuðstóls erlendis að hluta eða í heild, verið óheimil samkvæmt lögum og reglum um gjaldeyrismál. Jafnframt hefur Seðlabankinn ítrekað tekið fram að gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar á milli landa vegna vöru- og þjónustuviðskipta séu heimil. Ýmsir samningar um tryggingar falla undir kaup á vöru og þjónustu. Hins vegar er nokkuð um samninga sem nefndir hafa verið trygging sem fela í sér söfnun á höfuðstól eða sparnaði erlendis að einhverju leyti. Slík söfnun á höfuðstól er óheimil sem áður segir. Það á við hvort heldur um samninga sem eru eingöngu sparnaðarsamningar eða samninga sem eru blanda sparnaðar og hefðbundinnar vátryggingar.
Í flokk blandaðra samninga hafa einnig fallið samningar um líf- og sjúkdómatryggingu með söfnun. Þrátt fyrir það gerir 6. mgr. 11. gr. reglna nr. 565/2014, um gjaldeyrismál, einstaklingum sem gert hafa samninga við erlend vátryggingafélög um líf- og sjúkdómatryggingu með söfnun frá 28. nóvember 2008 fram til gildistöku reglnanna hinn 19. júní sl. kleift að standa við þá samninga í erlendum gjaldeyri. Áréttað er að með líftryggingu í þessu samhengi er átt við hefðbundnar áhættulíftryggingar með söfnunarþætti þar sem vátryggingarfjárhæðin er óháð uppsöfnuðum höfuðstól. Tilgangur framangreindrar heimildar er að tryggja að einstaklingar geti viðhaldið líftryggingunni þar sem erfitt gæti verið fyrir þá að fá sambærilega líftryggingu annars staðar, t.d. vegna breytts áhættumats.
Rétt er að árétta að nýjar reglur um gjaldeyrismál sem tóku gildi hinn 19. júní sl. fólu ekki í sér nýja túlkun eða breytingu á framkvæmd af hálfu Seðlabankans. Það er ávallt á ábyrgð söluaðila að sjá til þess að seldir samningar, sama hvaða nafni þeir nefnast, samrýmist lögum og reglum um gjaldeyrismál.
Seðlabanki Íslands mun á næstu dögum upplýsa vátryggingafélög og söluaðila um þeirra stöðu og verður leitað leiða til þess að lágmarka hugsanlegt óhagræði þeirra fjölmörgu einstaklinga sem gert hafa slíka samninga við erlend vátryggingafélög.
Seðlabankinn ítrekar enn fremur að einstaklingar ættu ekki að þurfa að bregðast við að svo stöddu og að Seðlabankinn muni leitast við, í kjölfar samráðs við vátryggingafélögin að upplýsa almenning frekar um stöðu mála.
Þá leggur Seðlabankinn áherslu á að eiga góða samvinnu við viðkomandi vátryggingarfélög til þess að lágmarka neikvæð áhrif á einstaklinga.
Nánari upplýsingar má finna á heimasíðum Seðlabanka Íslands, www.sedlabanki.is og Fjármálaeftirlitsins, www.fme.is.