"Þessi tilkynning er upprunalega birt á vefsetri Seðlabanka Íslands. Hún hefur ekki verið birt opinberlega á Evrópska efnahagssvæðinu af hálfu Seðlabanka Íslands, sbr. skilgreiningu laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
Vísað er til vefseturs Seðlabanka Íslands http://sedlabanki.is
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,5 prósentur.
Hagvöxtur á þessu ári, þar af einkum vöxtur einkaneyslu, stefnir í að verða minni en áður var spáð, ef marka má nýjustu þjóðhagsreikninga. Þær tölur eru hins vegar verulega á skjön við aðrar vísbendingar um þróun eftirspurnar, hvort heldur gögn um innflutning eða ýmsa mælikvarða á veltu. Batinn á vinnumarkaði heldur áfram, þótt eitthvað hafi hægt á vexti vinnuaflseftirspurnar. Áfram er útlit fyrir góðan vöxt innlendrar eftirspurnar og landsframleiðslu á næstu misserum.
Verðbólga minnkaði í 1% í nóvember og lítils háttar verðhjöðnun mælist sé horft fram hjá áhrifum húsnæðiskostnaðar. Lítil alþjóðleg verðbólga og stöðugt gengi krónu halda aftur af verðbólgu þrátt fyrir töluverðar launahækkanir. Því eru horfur á minni verðbólgu á næstunni en við síðustu vaxtaákvörðun í nóvember. Verðbólga verður því ef að líkum lætur nokkuð undir markmiði a.m.k. fram yfir mitt næsta ár. Verðbólguvæntingar hafa einnig lækkað á undanförnum mánuðum og eru nú á helstu mælikvarða við verðbólgumarkmiðið.
Þrátt fyrir lækkun nafnvaxta í nóvember hafa raunvextir bankans hækkað frekar sökum umtalsverðrar hjöðnunar verðbólgu og verðbólguvæntinga og eru hærri en staða hagsveiflunnar og nærhorfur gefa tilefni til. Því eru forsendur til að draga hluta hækkunar raunvaxta til baka.
Framvinda nafnvaxta ræðst eins og alltaf af þróun eftirspurnar og verðbólgu. Nafnvextir eru nú nálægt því sem ætla má að samrýmist jafnvægi í þjóðarbúskapnum og verðbólgu við markmið. Haldist verðbólga undir markmiði og verði launahækkanir í komandi kjarasamningum í samræmi við verðbólgumarkmið gætu skapast forsendur fyrir frekari lækkun nafnvaxta. Miklar launahækkanir og vöxtur eftirspurnar gætu hins vegar grafið undan nýfengnum verðstöðugleika og valdið því að hækka þurfi vexti á ný.
Vextir Seðlabanka Íslands verða samkvæmt þessu sem hér segir:
Daglán: 6,25%
7 daga veðlán: 5,25%
Viðskiptareikningar: 4,25%
7 daga bundin innlán: 4,50%