Samandregið álit sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir úttekt á efnahagsmálum


"Þessi tilkynning er upprunalega birt á vefsetri Seðlabanka Íslands. Hún hefur ekki verið birt opinberlega á Evrópska efnahagssvæðinu af hálfu Seðlabanka Íslands, sbr. skilgreiningu laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

Vísað er til vefseturs Seðlabanka Íslands http://sedlabanki.is

 

Samandregið álit sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir úttekt á efnahagsmálum samkvæmt fjórðu grein stofnsáttmálans og viðræður vegna fimmtu eftirfylgniskýrslu efnahagsáætlunar Íslands og AGS. 

Reykjavík, 19 desember, 2014

Helsta viðfangsefnið á sviði hagstjórnar er að styrkja fjárhagsleg tengsl Íslands við umheiminn. Árangur á þessu sviði er forsenda fyrir hagvexti og hagkvæmari fjárfestingarkostum fyrir heimili og fyrirtæki landsins. Það er skynsamlegt að taka varfærin skref til losunar fjármagnshafta í ljósi ástands heimsbúskaparins jafnhliða áframhaldandi stefnufestu og styrkingu innviða, en þar með talinn er sjálfstæður seðlabanki, haldgóðar ríkisfjármálareglur og traustar varúðarreglur og varúðarráðstafanir.

Jákvæðar horfur í efnahagsmálum ættu að styðja við áætlun um losun fjármagnshafta. Dregið hefur úr hagvexti á árinu, en innlend eftirspurn er kröftug. Ef litið er fram á veginn er útlit fyrir að einkaneysla muni styrkjast vegna skuldaleiðréttingar og lægra innflutningsverðs. Fjárfestingar einkageirans ættu að ná sér aftur á strik eftir fjármálaáfallið.

Veikleikar eru enn fyrir hendi. Eftirmál fjármálaáfallsins eru enn nokkur og hefur það áhrif á hagvöxt og dregur úr ytri stöðugleika. Af innlendum áhættuþáttum ber meðal annars að nefna óvissu vegna losunar fjármagnshafta, töluverðan þrýsting á launahækkanir í komandi kjaraviðræðum, lagaleg viðfangsefni vegna skatta á fjármálafyrirtæki og framkvæmd verðtryggingar og veika stöðu Íbúðalánasjóðs. Óvissa ríkir um ytri skilyrði, meðal annars vegna áhættu sem tengd er minni eftirspurn í helstu viðskiptalöndum og verðhjöðnunaráhrifa.

Endurnýjað átak í áætlun til losunar fjármagnshafta

Sendinefndin fagnar því átaki sem gert hefur verið til undirbúnings áætlunar um losun fjármagnshafta. Árangurinn kemur fram í samkomulagi við LBI og bættum skilningi á þeim vanda sem tengdur er viðfangsefninu. Leiðin sem valin verður í nýrri áætlun um losun fjármagnshafta mun móta Ísland til framtíðar. Til að tryggja jákvæð áhrif til langs tíma á hagkerfið þarf áætlunin að: (i) leggja áherslu á stöðugleika, (ii) vera víðtæk og tengd aðstæðum, (iii) grundvallast á trúverðugri greiningu, og (iv) leggja áherslu á samvinnu og hvatningu til þátttöku til að draga úr áhættu.

Áhersla á aukinn viðskiptajöfnuð styður við losun fjármagnshafta. Eftir hrun fjármálageirans batnaði viðskiptajöfnuður verulega í kjölfar gengisfalls, sem hefur stutt við útflutning og ferðaþjónustu. Þessa bættu samkeppnisstöðu þarf að styrkja enn frekar með stefnu sem hlúir að fjárfestingu og sparnaði – þar með talið fjárfestingu í innviðum – með áherslu á að haldið verði aftur af launahækkunum umfram framleiðniaukningu.   

Peningastefnan – áskoranir framundan

Peningastefnan er í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Nýleg vaxtalækkun er talin hæfileg í ljósi þess að raunvextir hafa hækkað sakir minnkandi verðbólgu og lækkandi verðbólguvæntinga ásamt nokkuð hægari hagvexti. Framvegis við vaxtaákvarðanir ætti að vega að kostgæfni þrýsting vegna launahækkana og  minni slaka í hagkerfinu á móti verðhjöðnunaráhrifum frá útlöndum. Kaup Seðlabankans á gjaldeyri á markaði til að byggja upp gjaldeyrisforða ættu að halda áfram eftir því sem aðstæður leyfa áður en fjármagnshöftum er létt.

 

Nauðsynlegt er að viðhalda sjálfstæði og trúverðugleika Seðlabankans. Við endurskoðun laga um bankann ætti að styðjast við helstu endurbætur á stjórnskipan hans frá 2009 svo sem umgjörð um peningastefnunefnd, gagnsæi og trúverðugleika ákvarðanatöku. Trúverðugur, sjálfstæður og vel fjármagnaður seðlabanki eykur mátt peningastefnu sem eflir efnahagslegan stöðugleika og vöxt og styður við losun fjármagnshafta.

Opinber fjármál – frá aðhaldi til hagvaxtar

 

Fjárlög ársins 2015 eru í samræmi við markmið um lækkun skulda en áhætta er enn til staðar. Fjárlög miða að afgangi hins opinbera sem svarar til 0,2% af VLF. Þetta er í samræmi við markmið um jöfnuð í opinberum fjármálum. Þessi niðurstaða endurspeglar innflæði stakrar greiðslu frá fjármálageiranum sem færir afgang ársins 2014 að 2% af VLF. Tilgreina ætti mögulegar viðbótaraðgerðir í opinberum fjármálum til að mæta áhættu. Möguleg áhætta felst í hugsanlegum lögsóknum vegna skatta á banka og auknu tapi Íbúðalánasjóðs, en auk þess gera fjárlög ráð fyrir hóflegum launahækkunum og öðrum útgjöldum sem gætu raungerst með öðrum hætti í væntanlegum kjarasamningum. Áframhaldandi agi í ríkisfjármálum til meðallangs tíma ásamt kröftugum hagvexti mun bæta á varasjóði, auka traust og stuðla að lægri vöxtum. Samþykki á frumvarpi til laga um opinber fjármál (e. Organic budget law) myndi stuðla að mikilvægri styrkingu á umgjörð opinberra fjármála og hæfni til að uppfylla viðmið sem aftur eykur traust erlendra fjárfesta.

 

Eftir að tímabili aðhalds og aðlögunar í opinberum fjármálum er að mestu lokið þarf stefnu í opinberum fjármálum sem styður við hagvöxt. Gera þarf meira til að skapa svigrúm fyrir opinbera fjárfestingu svo sem í vegakerfi og heilbrigðismálum, jafnframt því að færa skattbyrði frá beinum sköttum yfir í óbeina skatta. Greina þarf vel áhrif á afkomu mismunandi þjóðfélagshópa.

 

Stjórnvöld hafa hafið mikilvægar endurbætur á virðisaukaskattkerfinu. Hærra þrepið er með því hæsta og lægsta þrepið meðal þess lægsta sem gerist í OECD- ríkjunum. Margskonar undanþágur veikja hins vegar skilvirkni kerfisins sem tæki til tekjuöflunar. Tillögurnar um endurbætur hafa einhver áhrif á afkomu hinna ýmsu þjóðfélagshópa en aðrar ráðstafanir í ríkisfjármálum sem eru markvissari til jöfnunar ætti að nota samhliða. Til meðallangs tíma ætti að endurbæta virðisaukaskattkerfið til að eyða veikleikum í uppbyggingu  þess.       

Stefna varðandi fjármálageirann – styrking viðnámsþróttar

 

Bankarnir standa styrkir en mikilvægt er að viðhalda hárri eigin- og lausafjárstöðu til að mæta losun fjármagnshafta jafnframt því að mæta aukinni áhættu. Óvissa tengd arfleifð fjármálaáfallsins og lagaáhættu, þar á meðal kærumálum vegna verðtryggingar, kalla á skynsamlega ráðstöfun hagnaðar og aukna langtímafjármögnun hjá fjármálastofnunum. Sendinefndin hvetur Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið til að halda áfram að þróa álagspróf sem byggjast á efnahagslegum og fjármálalegum grunni.

 

Góður árangur hefur náðst í endurbótum á umgjörð fjármálastöðugleika. Seðlabankinn hefur styrkt regluverk um lausafjárstöðu í erlendum gjaldmiðlum með því að innleiða reglur um stöðugt fjármögnunarhlutfall sem byggir á Basel-III reglunum. Lagabreytingar hafa tekið gildi sem efla eftirlit með tengdum aðilum og unnið er að frekari endurbótum á áhættugreiningarkerfi Fjármálaeftirlitsins. Nýstofnað fjármálastöðugleikaráð hefur leitt umræðu um eiginfjárauka. Frekari vinnu er þörf til að þróa tæki til að mæta  kerfis – og hagsveifluáhættu.

 

Frekari styrking öryggisnets og eftirlits ásamt því að taka á vanda Íbúðalánasjóðs eru forgangsatriði.

Mikilvægt er að stjórnvöld vinni áfram að áætlunum um að færa innstæðutryggingar og uppgjör vegna slita á bönkum til samræmis við endurbætta alþjóðlega staðla. Koma ætti á skýru og gagnsæju kerfi vegna lausafjáraðstoðar auk þess sem endurbæta mætti samvinnu stofnana um viðbrögð við kreppu. Stjórnvöld þurfa að huga að því að leysa upp Íbúðalánasjóð með skipulegum hætti til að lágmarka kostnað ríkisins og kerfisáhættu. Jafnframt ætti að leita samstöðu um helstu félagsleg markmið íbúðalána áður en arftaka stofnunarinnar verður komið á fót.

 

Sendinefndin þakkar stjórnvöldum og öðrum viðmælendum fyrir hlýlegar móttökur, góða samvinnu og hreinskilnar og uppbyggilegar viðræður á meðan á heimsókninni stóð.