"Þessi tilkynning er upprunalega birt á vefsetri Seðlabanka Íslands. Hún hefur ekki verið birt opinberlega á Evrópska efnahagssvæðinu af hálfu Seðlabanka Íslands, sbr. skilgreiningu laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti."
Vísað er til vefseturs Seðlabanka Íslands http://sedlabanki.is
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 5,75%. Jafnframt ákvað nefndin að lækka bindiskyldu um 1,5 prósentur.
Samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands var hagvöxtur 4,5% á fyrstu þremur fjórðungum ársins sem er í meginatriðum í samræmi við nóvemberspá Seðlabankans. Kröftugur bati heldur einnig áfram á vinnumarkaði.
Verðbólguhorfur til skamms tíma hafa batnað frá nóvemberspá bankans. Verðbólga mældist 2% í nóvember. Hún hefur aukist minna undanfarið en spáð var vegna þess að lækkun alþjóðlegs hrávöru- og olíuverðs og hækkun á gengi krónunnar hafa vegið á móti innlendum verðhækkunum.
Sterkari króna og hagstæðari alþjóðleg verðlagsþróun hafa veitt svigrúm til að hækka vexti hægar en áður var talið nauðsynlegt. Það breytir hins vegar ekki því að miðað við spá Seðlabankans frá því í nóvember er líklegt að auka þurfi aðhald peningastefnunnar frekar á næstu misserum í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings. Hve mikið og hve hratt það gerist ræðst af framvindunni.
Á fundi sínum í september ákvað peningastefnunefndin að hækka bindiskyldu tímabundið úr 2% í 4% í því skyni að auðvelda Seðlabankanum stýringu á lausu fé bankakerfisins í tengslum við gjaldeyriskaup Seðlabankans og losun fjármagnshafta. Peningastefnunefnd hefur nú ákveðið að lækka bindiskyldu á ný úr 4% í 2,5% frá og með næsta bindiskyldutímabili sem hefst 21. desember nk. til þess að milda lausafjáráhrif afhendingar slitabúa gömlu bankanna á stöðugleikaframlögum. Áformað er að bindiskylda lækki að öðru óbreyttu á ný í 2% í tengslum við fyrirhugað útboð vegna svokallaðra aflandskróna.
Vextir Seðlabankans verða þá sem hér segir:
Daglán: 7,5%
Vextir á veðlánum: 6,5%
Bundin innlán til 7 daga: 5,75%
Vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana: 5,5%