Garðabær fyrirhugar útgáfu nýrra verðtryggðra skuldabréfa til 15 ára að fjárhæð allt að einum milljarði króna. Arion banki mun hafa umsjón með útboði á skuldabréfunum og mun fyrir hönd Garðabæjar kynna það fyrir hugsanlegum fjárfestum.
Útboðið er áformað mánudaginn 4. apríl næstkomandi að því gefnu að markaðsaðstæður verði útgefanda hagstæðar. Gert er ráð fyrir að niðurstöður útboðsins verði tilkynntar 5. apríl með fyrirvara um að bæjarstjórn samþykki hana þann 7. apríl.
Fyrirhuguð útgáfa skuldabréfa er til að mæta áætluðum fjárfestingum Garðabæjar á árinu 2016, sem samkvæmt fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að verði 1.238 milljónir króna. Þar af eru 400 m.kr. áætlaðar vegna sundlaugar í Ásgarði og hönnunar knatthúss, 335 m.kr. til gatnagerðar og 243 m.kr. til ýmissa bygginga.