Breytingar á reglum um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris


"Þessi tilkynning er aðgengileg á vefsetri Seðlabanka Íslands. Hún hefur ekki verið birt opinberlega á Evrópska efnahagssvæðinu af hálfu Seðlabanka Íslands, sbr. skilgreiningu laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

Vísað er til vefseturs Seðlabanka Íslands http://sedlabanki.is"

Í dag eru birtar reglur á vef Seðlabanka Íslands um breytingu á reglum nr. 490/2016 um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris. Reglurnar verða birtar í Stjórnartíðindum á morgun og taka gildi daginn eftir, eða hinn 14. mars 2017. Breytingarnar eru gerðar samhliða nýjum reglum um gjaldeyrismál, sem einnig eru birtar á vef Seðlabanka Íslands í dag, er fela í sér losun fjármagnshafta á heimili og fyrirtæki. Með því að afnema takmarkanir sem gilt hafa um fjármagnshreyfingar til og frá Íslandi og gjaldeyrisviðskipti opnast nýir möguleikar til vaxtamunarviðskipta sem nauðsynlegt er að bregðast við með breytingum á reglum nr. 490/2016. Breytingunum er þannig ætlað að tryggja virkni reglnanna og styðja markmið þeirra.

Í ljósi þessa er gerð breyting á bindingargrunni reglna nr. 490/2016 sem miðar að því að innstæður, sem nýttar eru beint eða óbeint, til eftirfarandi fjárfestinga, myndi bindingargrunn bindingarskylds aðila:

1. Í skuldabréfum eða víxlum, útgefnum í innlendum gjaldeyri, sem eru rafrænt skráð samkvæmt lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa.
2. Í hlutdeildarskírteinum sjóða sem fjárfesta í skuldabréfum eða víxlum, útgefnum í innlendum gjaldeyri, sem eru rafrænt skráð samkvæmt lögum um eignarskráningu verðbréfa, eða eiga innstæður í innlendum gjaldeyri ef samanlagt hlutfall reiðufjár og innlána, sem bera 3,00% ársvexti eða hærri, í eignasamsetningu sjóða er 10% eða hærra.
3. Eða í eigin fé fyrirtækis sem ráðstafað er, beint eða óbeint, í framangreindum fjárfestingum.

Þessum breytingum er ætlað að stuðla að því markmiði reglnanna að takmarka óæskilegt innflæði erlends gjaldeyris sem skapað getur kerfislega áhættu. Í sama tilgangi er jafnframt gerð breyting á bindingargrunni vegna lánveitinga til innlendra aðila sem miðar að því að takmarka bindingarskyldu við lánveitingar sem nýttar eru til fjárfestinga í hlutdeildarskírteinum sambærilegra sjóða og taldir eru upp vegna annarra fjárfestinga sem myndar bindingargrunn.

Til viðbótar eru gerðar ýmsar afleiddar breytingar sem snúa að bindingarskyldum aðilum, bindingarhlutfalli og framkvæmd bindingarskyldu. Aðrar breytingar sem gerðar eru fela í sér orðalagsbreytingar.

Reglurnar má finna á vef Seðlabanka Íslands. Þær taka líkt og áður segir gildi á þriðjudaginn.

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569 9600.