Sterk eiginfjárstaða og stöðugur rekstur
- Eitt stærsta framkvæmdaár í sögu Landsnets
Árshlutareikningur Landsnet fyrir janúar – júní 2017 var lagður fram í dag. Afkoma fyrirtækisins er samkvæmt áætlunum.
Á síðasta ári var unnið að breyttri fjármögnun og lánasafnið fært að stærstum hluta úr verðtryggðum íslenskum krónum yfir í Bandaríkjadali sem skilaði betri vaxtakjörum. Þetta endurspeglast í uppgjörinu þar sem verulegar breytingar hafa verið á gengi gjaldmiðla á tímabilinu en áhrifa þeirra gætir ekki nema að óverulegu leyti í uppgjörinu í fyrsta skipti í langan tíma.
Mikilvægum áföngum hefur verið náð í endurfjármögnun fyrirtækisins, búið er að greiða niður lán og endurgreiðsluferli langtímalána hjá félaginu bætt til muna.
Fjárfestingar eru undir áætlunum en tafir vegna leyfisveitinga höfðu áhrif á framkvæmdir fyrirtækisins. Stærsta einstaka verkefni ársins, að tengja Þeistareykjavirkjun og PCC á Bakka við meginflutningskerfið er þó á ætlun.
Helstu atriði árshlutareiknings
- Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 29,1 m. USD ( 3.010,8 millj.kr ) samanborið við 27,6 m. USD ( 2.853,2 millj.kr ) árið áður og er daglegur rekstur félagsins stöðugur. Hagnaður Landsnets hf. samkvæmt rekstrarreikningi nam 10,5 m. USD (1.089,6 millj.kr) fyrstu 6 mánuði ársins 2017 samanborið við 2,6 m. USD (273,2 millj.kr) tap á sama tímabili árið 2016.
- Heildareignir félagsins í lok tímabilsins námu 833,8 m. USD (86.160,9 millj.kr) samanborið við 770,8 m. USD (79.656,2 millj.kr) í lok árs 2016. Heildarskuldir námu í lok tímabilsins 514,2 m. USD (53.136,5 millj.kr) samanborið við 462,4 m. USD (47.785,0 millj.kr) í lok árs 2016.
- Eiginfjárhlutfall í lok tímabilsins var 38,3% samanborið við 40,0% í lok ársins 2016. Eigið fé í lok tímabilsins nam 319,6 m. USD (33.024,4 millj.kr) samanborið við 308,4 m. USD (31.871,2 millj.kr) í lok árs 2016.
- Lausafjárstaða Landsnets er sterk, handbært fé í lok júní nam 56,6 m. USD (5.845,9 millj.kr) og handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam 37,3 m. USD (3.852,4 millj. kr).
Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri:
„ Það er ánægjulegt að sjá að árshlutareikningurinn sýnir að rekstur Landsnets er stöðugur og eiginfjárstaða félagsins er sterk. Stefnan sem mörkuð var við endurfjármögnunina hefur þegar skilað miklum árangri . Við erum á lygnum sjó og höfum sett okkur það markmið að skila stöðugum, arðsömum og hagkvæmum rekstri. Á næstu misserum munum við ljúka við endurfjármögnun félagsins. Þrátt fyrir tafir vegna leyfismála stefnir í að þetta verði eitt mesta fjárfestingaár í sögu fyrirtækisins.“
Hér er hægt að nálgast árshlutareikninginn: www.landsnet.is
Frekari upplýsingar veitir:
Guðlaug Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri fjármála, sími 563 9311 eða netfang gudlaugs@landsnet.is
Til viðmiðunar eru sýndar íslenskar krónur, notast var við gengi USD /ISK 103,34