Landsnet og Norræni fjárfestingarbankinn hafa skrifað undir lánasamning að fjárhæð 50 milljóna bandaríkjadala, um 5,2 milljarða króna, til að fjármagna framkvæmdir við Þeistareykjalínu 1, Kröflulínu 4 og til að styrkja flutningskerfið í Skagafirði og á Snæfellsnesi. Lánið er mjög hagstætt, til tíu ára og á föstum vöxtum.
Framkvæmdirnar á Norðausturlandi skiptast í tvo verkhluta: Tengingu á milli Bakka og Þeistareykja með Þeistareykjalínu 1 og tengingu á milli Þeistareykja og Kröflu með Kröflulínu 4 auk byggingu nýrra yfirbyggðra tengivirkja á hverjum stað. Allt verkefnið var hannað með það að leiðarljósi að mannvirki og vegslóðar falli sem best að umhverfinu. Þá er einnig um að ræða fjármögnun á lagningu á 66 kV jarðstrengjum sem ætlað er að styrkja flutningskerfið og auka öryggi í svæðisbundna kerfinu.
Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsnets:
„Við erum ánægð með það traust sem NIB hefur sýnt okkur með þessari lánveitingu. NIB gerði sérstaka úttekt á umhverfisþáttum framkvæmdanna og það er ánægjulegt að segja frá því að Landsnet stóðst allar kröfur bankans varðandi umhverfisþætti enda leggjum við mikla áherslu á umhverfismál þegar kemur að okkar framkvæmdum.“
NIB er alþjóðleg fjármálastofnun í eigu átta landa – Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Íslands, Lettlands, Litháen, Noregs og Svíþjóðar. Bankinn lánar til opinberra- og einkaverkefna og hefur hæstu mögulegu lánshæfiseinkunn sem er AAA/Aaa frá Standard & Poor‘s og Moody‘s.
Nánari upplýsingar gefur Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármálasviðs í síma 861 1766 eða á netfangið: gudlaugs@landsnet.is.