Hampiðjan - Ársreikningur 2017


Árið 2017

  • Rekstrartekjur voru 126,9 m€ og jukust um 8,41% frá fyrra ári úr 117,1 m€.  
  • Hagnaður var 24,8 m€ en var 14,3 m€ árið áður.

Lykilstærðir

  • EBITDA af reglulegri starfsemi var 16,5 m€ en 14,7 m€ árið áður.  
  • Innleystur söluhagnaður vegna sölu hlutabréfa í HB Granda var 16 m€ en 4,3 m€ árið áður.
  • Heildareignir voru 186,9 m€ en í lok fyrra árs voru heildareignir 194,4 m€.
  • Vaxtaberandi skuldir voru 64,1 m€ en voru 81,4 m€ árið áður.
  • Eiginfjárhlutfall var 55% en 48% árið áður.
  • Meðalfjöldi starfsmanna á árinu var 967 en var 911 árið þar á undan.

Rekstur

Velta samstæðunnar var 126,9 m€ og er það aukning um 8,41% frá árinu áður en þá nam veltan 117,1 m€.

Kaup á félaginu Voot Beitu ehf. á árinu jók veltu samstæðunnar um 4,9 m€ en Voot Beita kom inn í samstæðuna frá og með byrjun júlí.

Rekstrarhagnaður af reglulegri starfsemi var 12,9 m€ eða 10,1% af rekstrartekjum en var 11,3 m€ eða 9,6% árið áður.  

Samstæðan innleysti söluhagnað af sölu fjárfestingareigna að fjárhæð 16 m€ á árinu samanborið við 4,3 m€ árinu áður.

Hagnaður ársins var 24,8 m€ en var 14,3 m€ árið 2016.

Efnahagur

Heildareignir voru 186,9 m€  og hafa lækkað úr 194,4 m€ í árslok 2016.  Lækkunina má rekja til sölu á fjárfestingareignum og niðurgreiðslu skulda.

Eigið fé nam 102,3 m€, en af þeirri upphæð eru 11,3 m€ hlutdeild minnihluta í eigin fé dótturfélaga. 

Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er meðtalin, var í árslok 55% af heildareignum samstæðunnar samanborið við 48% árið 2016.

Vaxtaberandi skuldir námu í árslok 64,1 m€ og lækkuðu um 17,3 m€ frá ársbyrjun.  Vaxtaberandi skuldir að frádregnu handbæru fé námu 51,1 m€ en voru 73,6 m€ og hafa því lækkað um 22,5 m€.

Helstu tölur í íslenskum krónum

Miðað við meðalgengi krónunnar gagnvart evru á árinu 2017 þá er velta samstæðunnar um 15,2 milljarðar,  EBITDA 2 milljarðar og hagnaður 3 milljarðar.  Miðað við gengi krónunnar gagnvart evru í lok árs 2017 þá eru heildareignir 23,4 milljarðar, skuldir 10,6 milljarðar og eigið fé 12,8 milljarðar.

Aðalfundur

Aðalfundur Hampiðjunnar verður haldinn miðvikudaginn 18. apríl 2018 í fundarsal félagsins að Skarfagörðum 4 í Reykjavík og hefst fundurinn klukkan 16:00.

Tillaga stjórnar um arðgreiðslu

Stjórn félagsins leggur til að á árinu 2018 vegna rekstrarársins 2017 verði greiddar 0,75 kr. á hlut í arð til hluthafa, eða 365 milljónir ISK.  Arðurinn verði greiddur í viku 23. 
Síðasti viðskiptadagur þar sem arður fylgir bréfunum er 18. apríl 2018, þ.e. viðskipti sem fara fram á þeim degi koma fram í hlutaskrá félagsins á arðsréttindadeginum 23. apríl.  Arðleysisdagurinn er 20. apríl.

Samþykkt ársreiknings

Ársreikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi Hampiðjunnar hf. þann 22. mars 2018. Ársreikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS – International Financial Reporting Standards) og hefur verið endurskoðaður af endurskoðendum félagsins.

Ársreikningurinn er aðgengilegur á heimasíðu Hampiðjunnar hf.,  www.hampidjan.is.

Hjörtur Erlendsson, forstjóri:

 „Liðið ár var afar gott fyrir Hampiðjuna en það var annað heila starfsárið eftir kaupin á fyrirtækjasamstæðunni P/f Von í Færeyjum.   Sala samstæðunnar jókst um 8,4% og EBITDA um 11,8%.   Efnahagsreikningurinn minnkaði við sölu fjárfestingareigna og niðurgreiðslu skulda og eiginfjárhlutfall hækkaði í 55%.

Á árinu var lokið við sölu hlutabréfanna í HB Granda en sú sala var til að fjármagna kaupin á P/f Von eins og ráðgert var.   Hlutabréfin höfðu hækkað frá því að Hampiðjan keypti þau og innleysti Hampiðjan því mikinn hagnað við sölu bréfanna.

Hagnaður Hampiðjunnar hefur því aldrei verið meiri í sögu fyrirtækisins og fer þar saman hagstæð rekstrarafkoma og mikill söluhagnaður hlutabréfanna.
Samþætting við Von hefur gengið vel og samlegðaráhrif eru farin að koma fram þótt töluvert sé enn að sækja enda gert ráð fyrir því að það tæki um 3 ár að ná fram fullum samlegðaráhrifum.  Samhliða samþættingunni hefur rekstur Von samstæðunnar verið styrktur með stækkun á netaverkstæðinu í Siauliai í Litháen úr 4.000 m2 í 10.000 m2 og á þessu ári verður lokið við byggingu á nýjum höfuðstöðvum Vonarinnar í Fuglafirði í Færeyjum ásamt stóru og myndarlegu netaverkstæði og lager.

Til að anna aukinni þörf fyrir veiðarfæraefni og fiskeldisnet í kjölfar kaupanna á Von þá hefur verið fjárfest í auknum vélakosti hjá Hampidjan Baltic í Litháen og afkastagetan eykst töluvert þegar líður á þetta ár bæði í ofurtógi og netum.

Rekstur fyrirtækja innan samstæðu Hampiðjunnar gekk prýðilega á árinu og rekstrarskilyrði voru hagstæð að undanskildu sjómannaverkfallinu hér á Íslandi.  Engu að síður jókst sala hér á Íslandi yfir árið en framlegðin minnkaði vegna verkfallsins og hækkandi launa.  Sala samstæðunnar er að mestu erlendis en um 87% af tekjunum koma frá erlendum mörkuðum.

Meðalfjöldi starfsmanna Hampiðjunnar var 967 en á árinu áður 911.  Á Íslandi voru 74 starfsmenn.

Á árinu var gengið frá kaupum á 68% af hlutafé Voot Beitu ehf. og fluttist rekstur félagsins til höfuðstöðva Hampiðjunnar í kjölfarið og velta félagsins og hagnaður telst með frá byrjun júlí. Afar vel hefur gengið að útfæra samstarfið og ná fram hagræðingu í lagerhaldi og þjónustu.  Vaxtarmöguleikar Voot Beitu eru miklir innan Hampiðjunnar á næstu árum enda hentar vöruúrval fyrirtækisins vel öðrum fyrirtækjum í samstæðunni.

Hækkun á olíuverði hefur ekki leitt til mikillar aukningar á sölu ofurtóga til olíuiðnaðar en hins vegar hefur sala gengið ágætlega á ofurtógum til djúpsjávarverkefna og ofurstroffum til uppsetningar á vindmyllum á hafi úti.

Á árinu byggði dótturfyrirtæki Hampiðjunnar á Írlandi, Swan Net Gundry, nýtt netaverkstæði í Leirvík á Hjaltlandseyjum sem var tekið í notkun á haustmánuðum.  Með nýrri aðstöðu er hægt að veita þjónustu allt árið ásamt því að selja ýmsar vörur til útgerðar og vinnslu.“

Nánari upplýsingar

Frekari upplýsingar veitir Hjörtur Erlendsson forstjóri í síma 664 3361.

Viðurkenndur ráðgjafi

Viðurkenndur ráðgjafi Hampiðjunnar á Nasdaq First North er PwC.


Anhänge

Hampiðjan 2017 samstæða