Breytingar á Íbúðalánasjóði og niðurfelling viðskiptavaktar og samnings um lánshæfismat


Með samþykkt laga 137/2019 um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og laga um úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs (sem samþykkt var á Alþingi 17. desember 2019, sjá nánar þingskjal 381/2019) er staðfest breyting á starfsemi ÍL-sjóðs (áður Íbúðalánasjóðs) þannig að sjóðurinn verði ekki lengur virk fjármálastofnun, veiti ekki ný lán og gefi ekki út frekari markaðsskuldabréf. Forræði ÍL-sjóðs og ábyrgð á úrvinnslu eigna og skulda sjóðsins, flyst frá og með 31. desember 2019 til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Önnur starfsemi Íbúðalánasjóðs flyst til nýrrar stofnunar, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) frá og með sama tíma.

Gerður verður þjónustusamningur við HMS um umsjón og innheimtu þeirra útlána sem tilheyra ÍL-sjóði. Þeir starfsmenn Íbúðalánasjóðs sem hafa sinnt markaðsverðbréfum sjóðsins munu áfram annast um daglega umsýslu í tengslum við þessi bréf. Nýtt símanúmer ÍL-sjóðs verður 534 8050.

Á fundi sínum í dag ákvað stjórn Íbúðalánasjóðs að segja upp samningi um viðskiptavakt með markaðsverðbréf Íbúðalánasjóðs og jafnframt samningi um lánshæfismat. Mun viðskiptavaktin og lánshæfismatið falla niður frá og með 31. desember 2019. Byggir sú ákvörðun á fyrrgreindum breytingum í starfsemi sjóðsins og því að markaður með íbúðabréf hefur síðustu ár verið mjög óvirkur, meðal annars vegna samþjappaðs eignarhalds.