Origo hf. - Ársuppgjör 2019 - Heildarhagnaður 456 mkr og EBITDA 1006 mkr


Reykjavík, 29. janúar 2020

Origo kynnti í dag uppgjör fjórða ársfjórðungs og heildaruppgjör fyrir 2019.  

Helstu upplýsingar:

  • Sala á vöru og þjónustu nam 4.336 mkr á fjórða ársfjórðungi 2019 (5,7% tekjuvöxtur frá F4 2018, án tekna Tempo 2018) og 14.845 mkr árið 2019 (7,5% tekjuvöxtur frá árinu 2018, án tekna Tempo 2018).  Tempo ehf. er ekki lengur hluti af samstæðureikningi félagsins
  • Framlegð nam 1.325 mkr (30,6%) á fjórða ársfjórðungi og 3.845 mkr árið 2019 (25,9%) (F4 2018: 26,6%, árið 2018: 26,6%) 4.173
  • EBITDA nam 302 mkr (7,0%) á fjórða ársfjórðungi og 1.006 mkr (6,8%) árið 2019 [F4 2018: 423 mkr (9,5%), 12M 2018: 1.128 mkr (7,2%)]
  • Heildarhagnaður nam 90 mkr á fjórða ársfjórðungi (F4 2018: 5.285 mkr) og 456 mkr árið 2019 (12M 2018: 5.420 mkr)
  • Eiginfjárhlutfall er 57,1%
  • Veltufjárhlutfall er 1,34
  • Origo keypti í desember hótelstjórnunarkerfið The Booking Factory (TBF), heildarlausn fyrir litla til meðalstóra gististaði.
  • Origo var útnefnt samstarfsaðili ársins á Íslandi hjá Microsoft og samstarfsaðili ársins í Danmörku fyrir öryggislausnir hjá IBM

Finnur Oddsson, forstjóri:
Heilt yfir gekk starfsemi Origo ágætlega á árinu 2019. Tekjur jukust um tæp 8%, EBITDA var 1006 mkr og  heildarhagnaður 456 mkr.  Afkomunni var aðeins misskipt eftir starfsþáttum, en hún var að mestu borin uppi af hugbúnaðartengdum verkefnum og þjónustu á meðan afkoma af rekstrarþjónustu og búnaðarsölu var í járnum. Þetta er tímanna tákn og er til vitnis um þær miklu breytingar sem hafa orðið á lausnaframboði Origo og þörfum viðskiptavina á tiltölulega skömmum tíma. Þessi þróun fylgir einnig aukinni áherslu atvinnulífs hérlendis og erlendis á stafræna vegferð, þ.e. nýtingu stafrænnar tækni, einkum hugbúnaðar, til að laga þjónustu að þörfum viðskiptavina, bæta, hraða eða gera hagkvæmari. 

Við erum sérlega ánægð með þróun í rekstri hugbúnaðareininga Origo á árinu, þó svo aðeins hafi dregið úr tekjuvexti og afkomu á fjórða ársfjórðungi. Origo hefur fjárfest verulega í þróun eigin lausna á mörgum sviðum, svo sem ferðaþjónustu, fjármálaþjónustu, mannauðsstjórnun og stýringu innkaupa. Með breiðara lausnaframboði og áherslu á þróun eigin lausna eru tekjustoðir hugbúnaðareininga nú bæði fleiri og fjölbreyttari en áður.  Viðskiptavinum hefur fjölgað verulega og telja nú í hundruðum þar sem áður voru tugir.  Hvoru tveggja dregur úr áhættu í rekstri og sveiflum í afkomu. 

Afkoma af starfsemi sem tengist rekstrarþjónustu og innviðum hefur batnað eftir því sem liðið hefur á árið en var töluvert undir væntingum þegar horft er til ársins í heild. Í fyrra var hagrætt mikið í rekstri Origo á þessu sviði, m.a. með breyttu skipulagi, einföldun á lausnaframboði, fjárfestingu í sjálfvirknivæðingu og útvistun verkefna. Gert er ráð fyrir að þessar aðgerðir muni skila bættum rekstri á nýju ári og teljum við að ágætur árangur sem náðist í fjórða ársfjórðungi sé vísir að því sem koma skal. Við finnum auk þess fyrir því að sala á stærri fyrirtækjalausnum og þjónustusamningum hefur tekið við sér og eftirspurn eftir öryggis- og skýjalausnum af ýmsu tagi hefur aukist verulega. Horfur á sviði rekstrarþjónustu og innviða eru því góðar.

Umsvif Origo í sölu á notendabúnaði hafa um árabil verið töluverð og er árið í fyrra þar engin undantekning.  Tekjur af notendabúnaði og tengdri þjónustu jukust um tæp 20% á árinu, sem er að hluta til vegna þess að lausnaframboð Origo á þessu sviði breikkaði töluvert á haustmánuðum með yfirtöku á tveimur rekstrareiningum. Afkoma var hins vegar undir væntingum og í raun óviðunandi. Megin skýringin á slakri afkomu liggur í vaxandi samkeppni í sölu á búnaði, þrýstingi á framlegð og hærri rekstrarkostnaði m.a vegna innleiðingar á fyrrgreindum rekstrareiningum. Unnið hefur verið markvisst að hagræðingu á þessu sviði Origo og sérstök áhersla lögð á að bæta framlegð, út frá nýju skipulagi og áherslum sem munu skila sér í betri afkomu á árinu 2020.

Tempo er nú rekið sem hlutdeildarfélag Origo, í samstarfi okkar og Diversis Capital.  Eins árs reynsla er nú komin á samstarf okkar og Diveris og það gengur sérlega vel, sem endurspeglast í mjög góðu gengi Tempo á síðastliðnu ári.  Mikil gróska var í vöruþróun, nýjum lausnum var hleypt, góður áfangi náðist með kaupum á fyrirtæki í tengdri starfsemi og tekjur jukust hraðar en áður, voru um 30 mUSD sem er 37% vöxtur á milli ára.  Það er mjög bjart framundan hjá Tempo.

Niðurstaða ársins 2019 er vel viðunandi, sérstaklega þegar horft er til þess að aðstæður í rekstri hafa verið nokkuð ögrandi.  Árið í fyrra var nýtt til endurskipulagningar á lykilsviðum rekstrar Origo, sem koma því sterkari en fyrr inn í nýtt ár.  Markmið okkar er að geta sinnt öllum þörfum viðskiptavina þegar kemur að stafrænum lausnum, hvort sem um ræðir tæknibúnað, hagkvæman rekstur kerfa, tilbúinn hugbúnað eða nýþróun lausna.  Við teljum okkur vera mjög góðan kost í slíku samstarfi, sem er í raun staðfest af viðurkenningum frá samstarfsaðilum og þeim öfluga hópi viðskiptavina sem við fáum að styðja við á degi hverjum.  Þegar litið er til næstu mánaða og ára eru horfur í rekstri Origo góðar.


Viðhengi


Anhänge

Origo ársreikningur 31.12.2019 2020.01.29 - Fréttatilkynning Árshlutauppgjör Origo hf. F4 2019