Stöðugur rekstur í krefjandi aðstæðum
Ársreikningur Landsnets 2019 var samþykktur á fundi stjórnar í dag 17. febrúar 2020.
Helstu atriði ársreikningsins:
- Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 50,2 milljónum USD (6.077,3 millj.kr.)1 samanborið við 61,1 milljónir USD (7.393,4 millj.kr) árið áður.
- Hagnaður nam 28,1 milljónum USD (3.403,6 millj.kr) á árinu 2019 samanborið við 37,1 milljónir USD (4.496,9 millj.kr.) hagnað á árinu 2018.
- Lausafjárstaða félagsins er sterk, handbært fé í lok árs nam 31,0 milljónum USD og handbært fé frá rekstri á árinu nam 67,2 milljónum USD.
Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármálasviðs segir árið 2019 hafa verið ár sviptinga vegna veðurs en fjármálalegur stöðugleiki einkenndi reksturinn.
„Þrátt fyrir áföll tengd óveðri gengur rekstur félagsins vel og fjárhagsleg staða þess stöðug líkt og síðustu ár. Þetta er gríðarlega mikilvægt í ljósi þess að stærsta viðfangsefni okkar er orkuöryggi þjóðarinnar og viðskiptavina.
Við vorum minnt á orkuöryggi og mikilvægi rafmagns í desember. Þrátt fyrir töluverða áraun og straumleysi hjá notendum gengu áætlanir okkar eftir og vinna við viðgerðir gengu vel. Að okkar mati hefði verið hægt að koma í veg fyrir hluta kostnaðarins vegna óveðursins ef uppbygging kerfisins hefði gengið samkvæmt áætlunum síðustu ár.
Á árinu 2019 tókst einungis að fjárfesta fyrir helming af áætluðum fjárfestingum ársins meðal annars vegna tafa á leyfisferlum. Þetta er svipuð staða og við höfum horft á undanfarin ár. Nú er vinna í gangi í stjórnkerfinu við að einfalda regluverkið og við höfum miklar væntingar til þess. Framundan er styrking flutningskerfisins og árið 2020 verður eitt af stærstu framkvæmdaárum félagins. Áætlanir okkar gera ráð fyrir framkvæmdum fyrir að lágmarki 70 milljónum USD á árinu 2020.
Fjármögnun félagsins hefur gengið mjög vel og fyrirtækinu vel tekið á erlendum mörkuðum. Í desember var gengið frá 100 milljónum USD skuldabréfaútgáfu í Bandaríkjunum sem nýtt er til lokagreiðslu á stofnláni móðurfélagsins með gjalddaga í mars árið 2020 auk fjárfestinga.“
Rekstrarreikningur
- Rekstrartekjur námu 140,3 milljónum USD árið 2019 á móti 154,1 milljónum USD árið áður. Félagið hefur þrjú megin tekjustreymi, tekjur af stórnotendum, tekjur af dreifiveitum og sölu á flutningstöpum og kerfisþjónustu.
- Tekjur af flutningi til stórnotenda lækkuðu um 2,7 milljón USD á milli ára en megin ástæða þess var lækkun gjaldskrár um mitt ár. Á móti var aflaukning í kerfinu sem skilar sér í auknum tekjum.
- Tekjur af flutningi til dreifiveitna lækkuðu um 7,4 milljónir USD á milli ára. Megin skýring var áhrif gengis en tekjur vegna dreifiveitna er í ISK. Einnig var lækkun í tekjum af skerðanlegum flutningi meðal annars vegna loðnubrests á árinu 2019.
- Tekjur vegna sölu á kerfisþjónustu og orkutöpum lækkuðu einnig á milli ára vegna áhrifa gengis. Gjaldskrá fyrir þessa þjónustu er sett á kostnaðargrunni með 1,5% álagi. Á árinu 2019 var gjaldskrá fyrir flutningstöp og kerfisþjónustu ákvörðuð á grundvelli útboða fyrir hvern ársfjórðung og tók breytingum í takti við niðurstöður útboða.
- Rekstrargjöld lækka um 2,9 milljón USD á milli ára en meðalgengi USD var 122,65 árið 2019 á móti 108,38 árið 2018. Þegar horft er til áætlana félagsins fyrir árið 2019 jókst kostnaður á árinu um 3 milljónum USD og má að stærstum hluta rekja það til kostnaðar sem hlaust af óveðri í desember.
- Í rekstri nam veiking krónunnar gagnvart bandaríkjadal á milli ára um 11,6%. Áhrif gengisbreytinga kemur fram í tekjum og gjöldum en í heild hefur veikingin lítil áhrif á rekstrarhagnað fyrir fjármagnsliði.
- Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 50,2 milljónum USD samanborið við 61,1 milljónir USD árið áður og lækkar um 10,9 milljón USD á milli ára.
- Hrein fjármagnsgjöld nema samtals 15,5 milljónum USD en voru 15,0 milljónir USD á árinu 2018. Hrein fjármagnsgjöld hækka um 0,5 milljónir USD á milli ára.
- Hagnaður Landsnets hf. samkvæmt rekstrarreikningi nam 28,1 milljónum USD á árinu 2019 samanborið við hagnað að fjárhæð 37,1 milljónum USD á árinu 2018.
- EBITDA félagsins var 79,8 milljónir USD (9.666,8 millj.kr.) á árinu 2019 í samanburði við 90,7 milljónir USD (10.983,2 millj.kr.) árið áður.
Efnahagsreikningur og sjóðstreymi
- Heildareignir félagsins í árslok námu 852,3 milljónum USD samanborið við 846,3 milljónir USD í lok árs 2018.
- Heildarskuldir námu í árslok 461,0 milljónum USD samanborið við 476,0 milljónir USD í lok árs 2018.
- Lausafjárstaða félagsins er sterk. Í lok árs nam handbært fé 31,0 milljónum USD og handbært fé frá rekstri á árinu nam 67,2 milljónum USD.
- Eiginfjárhlutfall í árslok var 45,9% samanborið við 43,8% árið áður.
Horfur í rekstri
Áætlanir félagsins fyrir árið 2020 gera ráð fyrir 27,2 milljóna USD hagnaði af rekstri félagsins. Í tekjuáætlun er byggt á þeim magn- og verðbreytingum sem félagið hefur vitneskju um. Kostnaðaráætlun er byggð á raunkostnaði við rekstur félagsins að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem ákvörðun tekjumarka felur í sér. Áætlanir félagsins um framkvæmdir á árinu hljóða upp á að minnsta kosti 70 milljónum USD. Í mars verður gengið frá 70 milljónum USD lokagreiðslu til móðurfélags vegna stofnláns. Fjármögnun þess gekk vel en henni var lokið í desember á síðasta ári en dregið verður á lánið í febrúar 2020.
Um ársreikninginn
Ársreikningur Landsnets hf. 2019 er gerður samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS). Uppgjör Landsnets er í bandaríkjadölum (USD) sem er starfrækslugjaldmiðill félagsins. Ársreikningurinn var samþykktur á fundi stjórnar 17. febrúar 2020.
Um Landsnet
Landsnet tók til starfa árið 2005 og ber ábyrgð á flutningskerfi raforkunnar, einum af mikilvægustu innviðum samfélagsins. Hlutverk félagsins er að annast flutning raforku á Íslandi, uppbyggingu flutningskerfisins og stjórnun raforkukerfisins.
Nánari upplýsingar gefur Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsnets, sími 563-9300 eða á netfanginu gudlaugs@landsnet.is
Nánar á www.landsnet.is þar sem hægt er að nálgast ársreikninginn.
1 Til viðmiðunar eru sýndar íslenskar krónur, notast var við gengi USD/ISK 121,10
Viðhengi