Uppgjör Brims hf. á þriðja ársfjórðungi 2020


  • Rekstrartekjur samstæðunnar á þriðja árfjórðungi voru 80,7 m€ og 213,8 m€ á fyrstu níu mánuðum ársins (3F 2019: 65,0 m€, fyrstu níu mánuðum 2019: 170,5 m€).  Aukningu rekstrartekna má fyrst og fremst rekja til þess að sölufélög í Asíu eru hluti af samstæðunni í ár, en félögin eru hluti af samstæðureikningsskilum Brims frá 1. október 2019.  Rekstrartekjur sölufélaganna, að teknu tilliti til innbyrðis viðskipta námu 25 m€ á þriðja ársfjórðungi og 70 m€ á fyrstu níu mánuðum ársins 2020.
  • EBITDA nam 26,6 m€ á þriðja ársfjórðungi og 43,8 m€ á fyrstu níu mánuðum ársins (3F 2019: 27,9 m€, fyrstu níu mánuðum ársins 2019: 51,0 m€)
  • Hagnaður á þriðja ársfjórðungi var 16,0 m€ og á fyrstu níu mánuðum ársins 21,5 m€ (3F 2019: 17,8 m€, fyrstu níu mánuði 2019: 28,5 m€)
  • Handbært fé frá rekstri nam 30,1 m€ á fyrstu níu mánuðum ársins (fyrstu níu mánuði 2019: 41,7 m€)

 

Rekstur fyrstu níu mánaða ársins 2020

Rekstrartekjur Brims hf. á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 námu 213,8 m€, samanborið við 170,5 m€ árið áður.  Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 43,8 m€ eða 20,5% af rekstrartekjum, en var 51,0 m€ eða 29,9% árið áður.  Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 5,8 m€, en voru neikvæð um 3,2 m€ á sama tíma árið áður.  Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 0,1 m€, en voru neikvæð um 0,1 m€ árið áður.  Hagnaður fyrir tekjuskatt var 27,3 m€ og hagnaður tímabilsins var 21,5 m€. 

Efnahagur

Heildareignir félagsins námu 777,0 m€ í lok september 2020. Þar af voru fastafjármunir 637,9 m€ og veltufjármunir 139,1 m€.  Eigið fé nam 330,2 m€, eiginfjárhlutfall í lok september var 42,5%, en var 45,3% í lok árs 2019. Heildarskuldir félagsins voru í septemberlok 446,9 m€.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 30,1 m€ á tímabilinu, en nam 41,7 m€ á sama tíma fyrra árs.  Fjárfestingarhreyfingar voru neikvæðar um 60,2 m€.  Fjármögnunarhreyfingar voru jákvæðar um 3,2 m€.  Handbært fé lækkaði því um 26,9 m€ á tímabilinu og var í lok september 26,6 m€.

Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna

Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi fyrstu níu mánaða árins 2020 (1 evra = 152,55 kr) verða tekjur 32,6 milljarðar króna, EBITDA 6,7 milljarður og hagnaður 3,3 milljarðar.  Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á gengi 30. september 2020 (1 evra = 162,2 kr) verða eignir samtals 126,0 milljarðar króna, skuldir 72,5 milljarðar og eigið fé 53,5 milljarðar.

Skipastóll og afli

Í skipastól félagsins voru í septemberlok tíu skip, en línubátarnir Kristján HF-100 og Steinunn HF-108 bættust við þegar Grunnur ehf. og Grábrók ehf. urðu hluti af samstæðunni 1. maí síðastliðinn.  Á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 var afli skipa félagsins 36 þúsund tonn af botnfiski og 67 þúsund tonn af uppsjávarfiski, á sama tíma fyrstu níu mánuði ársins var afli skipa samstæðunnar 40 þúsund tonn af botnfiski og 70 þúsund tonn af uppsjávarfiski.

Önnur mál

Félagið hefur á undanförnum vikum unnið að fjármögnun sem nýtt verður til fjármögnunar á fjárfestingum félagsins. Félagið hefur tryggt sér hagstæða skammtímafjármögnun frá banka en hyggst samhliða bjóða fjárfestum skuldabréf á félagið til sölu. Endanlegar fjárhæðir mögulegrar skuldabréfaútgáfu munu ráðast af eftirspurn fjárfesta og væntingum um kjör. Samhliða vinnur félagið að skilgreiningu græns fjármögnunarramma sem skuldabréf þess munu falla undir. Þegar slíkur rammi hefur verið skilgreindur og tekinn út af vottunaraðilum hyggst félagið stækka skuldabréfaútgáfu sína með útgáfu grænna eða eftir atvikum blárra skuldabréfa. Í heildina er gert ráð fyrir að skuldabréfaútgáfa félagsins geti numið allt að 60 m€.

Áhrif veirufaraldursins COVID-19 á rekstur samstæðunnar hafa áfram verið umtalsverð.  Aðgerðir til að takmarka þau á veiðar, vinnslu og dreifingu afurða halda áfram, sem og viðbrögð við krefjandi aðstæðum á mörkuðum. Áhrif heimsfaraldursins á reksturinn á næstu mánuðum og misserum ræðst eðlilega af þróun mála og mun áfram verða fylgst náið með henni. Brim er vel í stakk búið til að takast á við aðstæður, en sem fyrr er ekki hægt að segja til um áhrif faraldursins á rekstur og efnahag samstæðunnar í framtíðinni.

Kristján Þ. Davíðsson, stjórnarformaður Brims hf.:

Þrátt fyrir áframhaldandi neikvæð áhrif covid heimsfaraldursins á aðstæður rekstrar og á markaði hefur starfsfólki Brims með samstilltu átaki tekist vel til við rekstur veiða, vinnslu og markaðssetningar við þessar krefjandi aðstæður. Endurnýjun fiskiðjuvers á Norðurgarði er nú langt komin, veiði bolfisks hefur gengið þokkalega og verið áfallalaus. Vertíðir uppsjávarfisks í sumar og á haustmánuðum gengu einnig vel. Því má vel segja að niðurstaða uppgjörs Brims á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 verði að teljast vel ásættanleg segir Kristján Þ. Davíðsson stjórnarformaður Brims.

 

Kynningarfundur þann 20. nóvember 2020

Rafrænn kynningarfundur um afkomu félagsins á þriðja ársfjórðungi verður haldinn föstudaginn 20. nóvember klukkan 8:30.  Í ljósi aðstæðna fer hann eingöngu fram í gegnum fjarfundabúnað.  Hægt er að sækja um aðgang að fundinum á póstfangið kynning@brim.is.

Kristján Þ. Davíðsson stjórnarformaður mun kynna uppgjörið og svara spurningum.

Viðhengi



Anhänge

Brim Árshlutareikn 30.09.2020 Afkoma Brims hf 3Q2020