Tilkynning um innköllun á innstæðubréfinu CBI2016 útgefnu af Seðlabanka Íslands


Vísað er til útgáfulýsingar innstæðubréfs CBI2016 sem gefið var út af Seðlabanka Íslands þann 3. júní 2016 samkvæmt b-lið 3. tölul. 7. gr. reglna Seðlabanka Íslands, nr. 553/2009, um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands, sbr. 9. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001.  Bréfið var gefið út í tengslum við framkvæmd þágildandi laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum nr. 37/2016. Framangreind lög voru felld úr gildi með lögum um gjaldeyrismál nr. 70/2021, sem birt voru 25. júní sl.

Enginn lokagjalddagi er á innstæðubréfinu, en samkvæmt ákvæðum bréfsins getur Seðlabankinn innkallað innstæðubréfin að hluta eða í heild sinni frá og með útgáfudegi.  Seðlabankinn sér um greiðslur vegna innköllunar innstæðubréfanna.

Með vísan til framangreinds tilkynnist hér með að Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að innkalla framangreint innstæðubréf CBI2016 þann 1. júlí  2021 fyrir íslenskar krónur.  Innkallað nafnverð bréfa verður afhent viðkomandi eigendum umsýslureikninga hjá Seðlabankanum.

Innstæðubréfið verður í framhaldinu afskráð hjá verðbréfamiðstöð Nasdaq.