Gengið hefur verið frá ráðningu Sveins Margeirssonar í starf framkvæmdastjóra nýsköpunar og loftslagsmála hjá Brim hf. Sveinn mun taka formlega til starfa 1. ágúst næstkomandi.
Hlutverk Sveins verður að skapa tækifæri til verðmætaaukningar í starfsemi og nærsamfélagi Brims og leiða í framkvæmd stefnu félagsins á sviði nýsköpunar, vöruþróunar og loftslagsmála. Viðfangsefni hans er að gæta að virðisauka í öllum starfsþáttum félagsins og heildarhagsmunum Brims til lengri tíma. Með ráðningu Sveins stefnir Brim að aukinni samvinnu við íslensk og alþjóðleg fyrirtæki, háskóla og rannsóknarstofnanir á sviði sjálfbærrar nýtingar hráefna og vistvæns rekstrar í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Sveinn Margeirsson er með doktorspróf í iðnaðarverkfræði og hefur lokið stjórnunarnámi við Harvard Business School. Sveinn hefur starfað sem sjálfstæður ráðgjafi á sviði nýsköpunar og stefnumótunar, einkum tengt sjávarútvegi og verðmætasköpun í landbúnaði. Hann gegndi starfi forstjóra, sviðsstjóra og deildarstjóra hjá Matís en þar er unnið að nýsköpun og verðmætaaukningu i matvælaiðnaði. Þá hefur Sveinn verið sveitarstjóri Skútustaðahrepps frá 2020. Sveinn hefur yfirgripsmikla þekkingu og reynslu af nýsköpun, stefnumótun, stjórnun og miðlun efnis í ræðu og riti.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims hf.:
„Það er ánægjulegt að fá Svein í Brim teymið. Hann hefur í störfum sínum sýnt eftirtektarvert frumkvæði og þor, sem eru nauðsynlegir eiginleikar þegar leiða skal Brim enn frekar inn á brautir sjálfbærrar þróunar, nýsköpunar og alþjóðlegs samstarfs.“
Dr. Sveinn Margeirsson, verðandi framkvæmdastjóri nýsköpunar og loftlagsmála hjá Brimi hf.:
„Nýsköpun og samfélagsleg ábyrgð eru lykillinn að lausn loftslagsmála, sem er stærsta áskorunin sem mannkynið stendur nú frammi fyrir. Brim hefur sýnt í verki mikla ábyrgð í umgengni við náttúru og samfélög. Það er afar spennandi að geta haft áhrif á stefnu hjá öflugu sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi við uppbyggingu á hringrásarhagkerfi og vistkerfi nýsköpunar.“