Ársreikningur Fjarðabyggðar 2021 tekinn til fyrri umræðu í bæjarstjórn
Fimmtudaginn 31. mars 2022 fer fram fyrri umræða bæjarstjórn Fjarðabyggðar um ársreikning bæjarfélagsins fyrir árið 2021. Ársreikningurinn hefur verið áritaður af bæjarráði og bæjarstjóra, en samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í bæjarstjórn. Áformað er að ársreikningurinn verði afgreiddur við síðari umræðu í bæjarstjórn þann 7. apríl næstkomandi.
Rekstrartekjur samstæðu A og B hluta sveitarfélagsins námu samtals 8.746 millj. kr., en þar af námu rekstrartekjur A hluta 6.654 millj. kr. Til samanburðar voru rekstrartekjur samstæðu 8.706 millj. kr. árið 2020. Rekstrartekjur samstæðu hækkuðu einungis um 0,5% á milli ára vegna áhrifa á aflagðri starfsemi í rekstri hjúkrunarheimila í maí 2021 og sölu Rafveitu Reyðarfjarðar um mitt ár 2020.
Rekstrarniðurstaða, án afskrifta og fjármagnsliða, hjá samstæðu A og B hluta var jákvæð sem nam 1.233 millj. kr. á árinu. Þar af var rekstrarniðurstaða í A hluta 160 millj. kr. Framlegð eða EBITDA nam 16,8% hjá samstæðu og 7,4% í A hluta sem er bati frá fyrra ári. Rekstrarniðurstaða fyrir bæði A hluta og AB hluta litast af mikilli hækkun lífeyrisskuldbindinga vegna breytinga á lífslíkum og annarra ytri þátta við mat á lífeyrisskuldbindingum. Í rekstrinum eru gjaldfærðar 520 millj. kr. í A hluta og 548 millj. kr. í A og B hluta vegna lífeyrisskuldbindingarinnar. Gjaldfærslan er 209 millj.kr. hærri en á fyrra ári og 371 millj. kr. hærri fjárhæð en áætlun ársins gerði ráð fyrir.
Við samanburð á ársreikningnum á milli áranna 2021 og 2020 í bæði A hluta og A og B hluta þarf að taka tillit til sölu á Rafveitu Reyðarfjarðar á árinu 2020 og að hjúkrunarheimili Fjarðabyggðar voru yfirtekin í maí á árinu 2021 af ríkissjóði.
Rekstrargjöld, án afskrifta, í samstæðu A og B hluta námu 7.514 millj. kr. og þar af voru rekstrargjöld A hluta 6.494 millj. kr. Breyting launa m.a. vegna styttingar vinnuvikunnar, lífeyrisskuldbindinga og launatengdra gjalda í samstæðu nam um 6,8 til hækkunar eða um 339 millj. kr. á milli áranna 2020 og 2021 og þar af í A hluta um 536 millj. kr. eða um 12,7%. Annar rekstrarkostnaður samstæðu lækkaði um 199 millj. kr. milli áranna 2020 og 2021 og nam 2.175 millj. kr. á árinu 2021. Annar rekstrarkostnaður lækkaði um 8,4% milli ára.
Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur, í samstæðu A og B hluta, námu 378 millj. kr. samanborið við 386 millj. kr. árið 2020.
Fjárfestingahreyfingar í samstæðu A og B hluta námu samtals 924 millj. kr. á árinu 2021 samanborið við 828 millj. kr. árið áður. Helstu fjárfestingar ársins voru vegna hafnar- og íþróttamannvirkja. Söluverð rekstrarfjármuna námu um 306 millj.kr. samanborið við 730 millj.kr. árið 2020.
Afborganir langtímalána og leiguskuldbindinga námu 771 millj. kr. á árinu. Lántökur ársins námu um 463 millj. kr. Handbært fé hækkaði á árinu um 13 millj. kr. og nam 193 millj. kr. í árslok 2021
Eignir sveitarfélagsins voru í lok árs 2021 samtals að fjárhæð 16.673 millj. kr., þar af námu fastafjármunir 15.631 millj. kr.
Heildarskuldir og skuldbindingar námu um 10.171 millj. kr. og hækkuðu á milli ára um 163 millj. kr. Langtímaskuldir við lánastofnanir og leiguskuldir námu um 5.129 millj. kr., skammtímaskuldir 1.777 millj. kr. og lifeyrisskuldbinding og aðrar skuldbindingar námu um 3.265 millj. kr.
Eigið fé samstæðu var 6.502 millj. kr. í árslok 2021 samanborið við 6.083 millj. kr. í árslok 2020. Breytingin á eigin fé skýrist af rekstrarniðurstöðu ársins og endurmati lóða.
Nánari upplýsingar veita Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri og Snorri Styrkársson fjármálastjóri í síma 470-9000.
Viðhengi