Árshlutareikningur Landsnets fyrir janúar – júní 2022 var lagður fram í dag.
Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármála hjá Landsneti segir rekstur stöðugan og á áætlun þrátt fyrir áskoranir í aðfangakeðjunni
„Við hjá Landsneti leggjum áherslu á hagkvæman og stöðugan rekstur en þessir þættir eru mikilvægir fyrir rekstur lykilinnviðafyrirtækis ásamt því að skipta miklu máli fyrir viðskiptavini okkar. Það er afar ánægjulegt að geta sýnt fram á að við stöndum undir þessum kröfum, þrátt fyrir mikið umrót á heimsmarkaði og tímabundnum orkuskorti hér á landi á vormánuðum. Orkuskorturinn olli hækkunum tímabundið á gjaldskrá vegna orku sem tapast við flutning í kerfinu. Rekstur félagsins hefur gengið vel. Hagnaður tímabilsins er þó yfir áætlun og má það rekja, að miklu leyti, til aukinna tekna vegna flutningstapa. Gert er ráð fyrir að komið verði jafnvægi á milli tekna og gjalda vegna flutningstapa í lok ársins. Fjárfestingar eru á áætlun þrátt fyrir fjölmargar áskoranir í aðfangakeðjunni. Árshlutareikningurinn sýnir fjárhagslegan styrk Landsnets og árangur í rekstri. Samhliða þessum niðurstöðum er nauðsynlegt að huga að því að viðhalda sterkri stöðu félagsins og þar skiptir stöðugleiki í lagaumhverfinu miklu máli fyrir okkur og lánveitendur fyrirtækisins.“
Helstu atriði árshlutareiknings:
Hagnaður Landsnets hf. samkvæmt rekstrarreikningi nam 19,5 m. USD (2.518,2 millj.kr) 1 fyrstu 6 mánuði ársins 2022 samanborið við 16,5 m. USD (2.130,2 millj.kr) á sama tímabili árið 2021. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 32,7 m. USD (4.231,0 millj.kr) samanborið við 28,7 m. USD (3.709,8 millj.kr) árið áður.
Heildareignir félagsins í lok tímabilsins námu 1.031,1 m. USD (137.882,8 millj.kr) samanborið við 1.020,2 m. USD (136.417,9 millj.kr) í lok árs 2021. Heildarskuldir námu í lok tímabilsins 563,8 m. USD (75.390,9 millj.kr) samanborið við 549,6 m. USD (73.495,1 millj.kr) í lok árs 2021.
Eiginfjárhlutfall í lok tímabilsins var 45,3% samanborið við 46,1% í lok ársins 2021. Eigið fé í lok tímabilsins nam 467,3 m. USD (62.491,9 millj.kr) samanborið við 470,6 m. USD (62.922,9 millj.kr) í lok árs 2021.
Handbært fé í lok júní nam 28,9 m. USD (3.866,4 millj.kr) og handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam 41,8 m. USD (5.411,6 millj.kr).
Nánar á www.landsnet.is þar sem hægt er að nálgast ársreikninginn.
Nánari upplýsingar gefur Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsnets, sími 563-9300 eða á netfanginu gudlaugs@landsnet.is
1 Til viðmiðunar eru sýndar íslenskar krónur, notast var við meðaltal miðgengis Seðlabanka USD/ISK 129,33 fyrir rekstrartölur en lokagengi miðgengis Seðlabanka þann 30. júní USD/ISK 133,72 fyrir efnahagstölur.
Viðhengi